Innlent

Vill tengja húsaleigubætur við lágmarks brunavarnir

Slökkviliðsstjóri telur að bæta megi öryggi þeirra sem búa í ósamþykktu íbúðarhúsnæði og annarra á leigumarkaði með því að tengja greiðslur húsaleigubóta við skilyrði um lágmarks brunavarnir.

Húsaleigubætur greiðast til leigjenda í íbúðarhúsnæði með fullnægjandi heimilisaðstöðu jafnvel þó íbúðin sé ósamþykkt. Engin skilyrði eru þar um brunavarnir sem er að sögn Jóns Viðars Matthíassonar oft ábótavant, sérstaklega í óleyfisíbúðum, en slíkar aðstæður kostuðu fimm manneskjur nánast lífið í vikunni.

Jón Viðar telur að hægt væri að tryggja eldvarnaröryggi þeirra sem búa í ósamþykktum íbúðum sem og annarra á leigumarkaði með því að breyta lögum um húsaleigubætur og tengja þær brunaöryggi.

„Að það yrði reykskynjari og slökkvitæki - annars fengi leigjandinn ekki greiddar húsaleigubæturnar," segir Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri SHS.

Stjórn Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu sendi árið 2010 þáverandi félags og tryggingamálaráðherra bréf og bað hann um að kanna möguleikana á þessu. Því var ekki svarað og var tillagan því ítrekuð fyrir rúmum mánuði. Enn hafa engin svör borist.

„Þetta hlýtur að vera í kerfinu. Vonandi er fólk að horfa á þetta og skoða þessar breytingar. Ég á því von á að fá einhver svör á næstunni."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×