Innlent

Verja skjólstæðinga gegn fjölmiðlum

Fjölmiðlar fá almennt ekki aðgang og starfsfólkið vísar á upplýsingafulltrúa varðandi svör við spurningum.
Fréttablaðið/GVA
Fjölmiðlar fá almennt ekki aðgang og starfsfólkið vísar á upplýsingafulltrúa varðandi svör við spurningum. Fréttablaðið/GVA
Skrifstofustjóri velferðarsviðs Reykjavíkur segir það ekki hlutverk sviðsins að finna viðmælendur fyrir fjölmiðla. Þetta kemur fram í svari Huldu Styrmisdóttur vegna fyrirspurnar í borgarráði eftir frétt Ríkisútvarpsins um að lagt hefði verið fyrir starfsmenn velferðarsviðs að svara ekki fjölmiðlum sjálfir.

Þann 11. janúar fengu forstöðumenn og stjórnendur á velferðarsviði tölvupóst. „Það er vinnuregla að vísa öllum fyrirspurnum eða óskum frá fjölmiðlum fyrst til upplýsingafulltrúa,“ segir meðal annars í póstinum sem Hulda kveður hafa verið sendan að beiðni stjórnenda sviðsins. Tilefnið hafi verið ósk fjölmiðils um að taka viðtöl við notendur þjónustu velferðarsviðs á einni starfsstöðva þess.

„Mikilvægt er að samræmi sé í viðbrögðum forstöðumanna varðandi tiltekna þætti, þar með talið aðgengi að starfsstöðvum og samskipti við fjölmiðla,“ segir í svari skrifstofustjórans við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna. Ástæðan sé eðli þjónustunnar.

„Þeir sem njóta þjónustu velferðarsviðs standa oftast höllum fæti vegna veikinda, fötlunar,öldrunar, félagslegra erfiðleika eða af öðrum ástæðum og er það skylda velferðarsviðs að verja þá, þar með talið gagnvart fjölmiðlum.“ - gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×