Fótbolti

FIFA gæti leyft fjórðu skiptinguna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Nordic Photos/Getty
Alþjóðaknattspyrnusambandið ætlar að taka fyrir hugmynd um að bæta fjórðu skiptingunni við í framlengingum fótboltaleikja þegar knattspyrnulaganefnd sambandsins hittist í næsta mánuði. Fundurinn fer fram í Englandi 3. mars næstkomandi.

Fjórða skiptingin er hugsuð bæði til að bæta gæði leikjanna sem og að verja útkeyrða leikmenn fyrir ofálagi enda er framlenging 30 mínútna viðbót við þær 90 mínútur sem venjulegur leikur tekur. Síðasta áratuginn og rúmlega það hafa þjálfarar mátt gera þrjár skiptingar en áður fyrr voru þær bara tvær.

Knattspyrnulaganefndin mun einnig taka umræðu um marklínutækni en nefndarmenn fá þá yfirlit yfir prófanir á átta ólíkum græjum. Þeir munu síðan ákveða hvaða græjur verða settar í frekari prófanir en lokaákvörðun um marklínutæknina verður síðan tekin á öðrum fundi í júlí.

Það verður fleira tekið fyrir á þessum fundi eins og það að leyfa íslömskum knattspyrnukonum að spila með höfuðklúta, hvort eigi að afnema þreföldu refsinguna (víti, rautt spjald og leikbann) og meta það hvernig það gekk að láta dómara merkja það með spreibrúsa hversu nálægt varnarmenn mega vera þegar aukaspyrna er tekin. Spreibrúsinn var í prófun í Suður-Ameríkukeppninni síðasta sumar.

Sex af átta nefndarmönnum í knattspyrnulagastjórn FIFA þurfa að samþykkja breytingar til þess að þær öðlist gildi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×