Innlent

Batamerki berast nú frá byggingarfulltrúa

Byggt á ný Skyndilegur endir var bundinn á fyrirhugað íbúðahverfi í Úlfarsárdal þegar efnahagskreppan skall á árið 2008. Hjólin eru farin að snúast þar að nýju.Fréttablaðið/Pjetur
Byggt á ný Skyndilegur endir var bundinn á fyrirhugað íbúðahverfi í Úlfarsárdal þegar efnahagskreppan skall á árið 2008. Hjólin eru farin að snúast þar að nýju.Fréttablaðið/Pjetur
Byggingariðnaðurinn á höfuðborgarsvæðinu virðist vera byrjaður að rétta úr kútnum ef marka má ársskýrslu byggingarfulltrúans í Reykjavík sem sýnir þrefalda aukningu á samþykktu byggingarmagni í borginni í fyrra miðað við árið 2010.

Í ársskýrslu byggingarfulltrúans fyrir árið 2011 kemur fram að í fyrra voru samþykkt byggingaráform fyrir samtals 194 þúsund rúmmetra af nýju húsnæði samanborið við um 68 þúsund rúmmetra árið 2010.

„Um þrefalda aukningu var því að ræða á samþykktu byggingarmagni á milli ára. Samþykkt byggingarmagn árið 2011 var hins vegar um tíu prósent af því sem samþykkt var árið 2007 fyrir allar tegundir af húsnæði, þ.e. íbúðir, stofnanir, verslunar- og skrifstofuhús, iðnaðarhús, vörugeymslur og fleira,“ segir í fylgiskjali með ársskýrslunni.

Mesta aukningin í nýbyggingum í fyrra var í íbúðarhúsnæði. Þá var hafist handa við 113 nýjar íbúðir samanborið við aðeins 14 íbúðir árið 2010. Þrátt fyrir þessa þróun er enn mjög langt í land að því að bygging nýrra íbúða nái meðaltali áranna 1972-2011, sem er 608 íbúðir á ári. Þá er þess að geta að lokið var við 95 íbúðir á árinu 2011 sem er 214 íbúðum færri en á árinu 2010. Um síðustu áramót voru 736 íbúðir í smíðum í borginni. Þar af voru 423 íbúðir fokheldar eða meira.

gar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×