Innlent

Vél Iceland Express þurfti að lenda á Stansted

Flugvél Iceland Express sem lenda átti á Gatwick flugvelli í Lundúnum 12:10 að íslenskum tíma varð að lenda á Stansted flugvelli vegna nauðlendingar Virgin vélarinnar sem varð til þess að flugvellinum hefur verið lokað. Í tilkynningu frá Iceland Express segir að níutíu og níu farþegar séu um borð í flugvél Iceland Express sem bíður nú færis á að komast á Gatwick.

Virgin vélin neyddist til að lenda skömmu eftir flugtak vegna reykjar sem kom upp í flugstjórnarklefanum. Vélin er þannig staðsett á flugvellinum að loka þarf fyrir almenna flugumferð. Allir farþegar Virgin flugvélarinnar eru komnir frá borði og engan sakaði.

„Flugvél Iceland Express lenti á Stansted kl. 12:30 að íslenskum tíma og bíða farþegar um borð í flugvélinni og fá veitingar. Á þessari stundu er reiknað með að Gatwick flugvöllur verði opnaður kl. 15:00 og verður þá flogið þangað með farþegana. Þetta atvik mun óhjákvæmilega valda seinkun á komu flugs Iceland Express til Keflavíkur síðdegis í dag," segir í tilkynningu frá Iceland Express.

Á Sky má sjá að vélin hefur verið dregin af flugbrautinni svo umferð ætti að fara að komast í samt lag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×