Innlent

Minnihluti fylgjandi Vaðlaheiðargöngum

Um 28 prósent landsmanna vilja að ráðist verði í gerð Vaðlaheiðarganga í ríkistryggðri einkaframkvæmd en 47 prósent eru því andvíg, samkvæmt niðurstöðum skoðanakönnunar Fréttablaðsins og Stöðvar 2.

Alls sagðist 15,1 prósent mjög fylgjandi því að göngin verði gerð í einkaframkvæmd og 13,1 prósent frekar fylgjandi. Um 17,7 prósent sögðust því frekar andvíg og 29,5 prósent sögðust mjög andvíg hugmyndinni. Nærri fjórðungur, 24,6 prósent, sagðist hvorki fylgjandi né andvígur lagningu ganganna í ríkistryggðri einkaframkvæmd.

Íbúar landsbyggðarinnar eru almennt hlynntari því að ráðist verði í gerð ganganna. Alls sagðist 42,1 prósent þeirra sem búsettir voru utan höfuðborgarsvæðisins mjög eða frekar fylgjandi áformunum, en 39,1 prósent sagðist mjög eða frekar andvígt þeim.

Talsvert lægra hlutfall íbúa höfuðborgarsvæðisins, 24,6 prósent, sagðist hlynnt göngunum, en 51 prósent var á móti því að gera þau í ríkistryggðri einkaframkvæmd.

Hringt var í 800 manns þann 8. og 9. febrúar. Þátttakendur voru valdir með slembiúrtaki úr þjóðskrá og skiptust jafnt eftir kyni, og hlutfallslega eftir búsetu og aldri. Spurt var: Ert þú fylgjandi því eða andvíg(ur) að ráðist verði í gerð Vaðlaheiðarganga í einkaframkvæmd með ríkisábyrgð? Alls tóku 91,9 prósent afstöðu.

Beðið um framlengingu á tilboði

Lægsta tilboð í Vaðlaheiðargöng rennur út á morgun, 14. febrúar. Formleg ósk um að það verði framlengt um fjóra mánuði var lögð fram fyrir helgi.

Fjórir mánuðir eru liðnir frá því að tilboð voru opnuð í gerð Vaðlaheiðarganga en lægsta boð kom frá ÍAV og Marti og var upp á tæpa níu milljarða króna, um hálfum milljarði króna undir kostnaðaráætlun. Stjórn Vaðlaheiðarganga hefur nú farið þess á leit við verktakana að þeir framlengi tilboð sitt um fjóra mánuði.

Með framlengingu tilboðsins vonast menn til að skapa Alþingi nægilegt svigrúm til að móta endanlega afstöðu til verkefnisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×