Innlent

Halldór Gylfa faðmaði sviðsmanninn eftir óhappið

Boði Logason skrifar
Mildi þykir að Halldór hafi ekki slasast meira eftir fallið, sem var um fjórir metrar.
Mildi þykir að Halldór hafi ekki slasast meira eftir fallið, sem var um fjórir metrar. mynd/365
„Ég er svona að koma til. Mér er svolítið illt í bakinu, er aumur og marinn, og get ekki verið á mikilli hreyfingu," segir Halldór Gylfason, leikari í Borgarleikhúsinu. Um helgina féll hann fjóra metra niður hlera sem opnaðist fyrir slysni þegar hann var að leika í sýningunni Galdrakarlinn í Oz.

Halldór slapp ótrúlega vel og að sögn lækna, sem hafa myndað hann í bak og fyrir, er hann óbrotinn. Hann féll niður hlerann í miðri sýningu en fallið var eins og áður segir fjórir metrar. „Ég datt fyrst á lyftu sem var um einn metra fyrir neðan sviðið og svo eftir það datt ég þrjá metra." Hann var fluttur með sjúkrabíl upp á spítala.

Hann segist vera heppinn að hafa sloppið svona vel. „Ef maður hefði lent einhvern veginn öðruvísi þá hefði þetta getað farið verr. Ég var heppinn að reka ekki hausinn utan í neitt," segir hann og kveðst ekki hafa lent áður í svipuðu slysi. „Leikarar lenda ekki í svona á hverjum degi."

Mannleg mistök urðu til þess að hlerinn opnaðist fyrir slysni. „Þetta var bara óheppni og mistök. Það getur alltaf gerst, þetta voru bara mannleg mistök," segir hann en hann ber engan kala til þess sem átti að sjá um að hlerinn væri lokaður. „Nei, þvert á móti. Það er bara kærleikur til stráksins sem sá um þetta. Ég hitti hann strax eftir þetta og við föðmuðumst."

Bergur Þór Ingólfsson, leikari og leikstjóri sýningarinnar, tók að sér hlutverk Halldórs sem huglausa ljónið það sem eftir var af sýningunni.


Tengdar fréttir

Huglausa ljónið féll niður hlera í miðri sýningu

"Samkvæmt öllum myndum og rannsóknum ætti hann að sleppa ótrúlega vel,“ segir leikarinn og leikstjórinn Bergur Þór Ingólfsson sem leikstýrir leiksýningunni Galdrakarlinn í Oz sem er sýnd í Borgarleikhúsinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×