Innlent

Gætu liðið mánuðir til viðbótar

Hörður Svavarsson
Hörður Svavarsson
Nokkrir mánuðir til viðbótar gætu liðið þar til íslenskt fólk, sem ættleiddi tvær stúlkur frá Kólumbíu, fær úrlausn sinna mála. Hjónin, Bjarnhildur Hrönn Níelsdóttir og Friðrik Kristinsson, hafa verið föst með stúlkurnar í Kólumbíu síðan í desember í fyrra.

Hörður Svavarsson, formaður Íslenskrar ættleiðingar, segir að hjónin hafi gert allt rétt í málinu og séu í góðu samstarfi við ættleiðingaryfirvöld ytra.

Hjónin hittu dómara í yfirrétti Medellin-borgar um miðjan ágúst, að því er fram kemur á upplýsingasíðu þeirra. „Þetta fer á annað dómsstig sem getur tekið einhverja mánuði. Þau eru bara þarna úti og það kostar þau peninga og þetta er náttúrulega alveg ömurlegt,“ segir Hörður. Félagið hefur reynt að styrkja þau, en er mjög fjársvelt.

„Við höfum verið í samræðum við ráðuneytið um að það ætti að leggja þessu fólki til einhvern stuðning. Þar eru allir af vilja gerðir og hafa samúð með þeim í þessum aðstæðum.“ Hörður segir hins vegar að ekkert hafi verið afgreitt af hálfu ráðuneytisins. „Utanríkisþjónustan hefur nú sýnt það að hún getur lagt Íslendingum lið þegar þeir lenda í erfiðleikum erlendis, eru settir í fangelsi og svona, þá finnst okkur að það eigi líka að styðja þessa samborgara okkar.“ - þeb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×