Innlent

Ríkisendurskoðun skortir fé til að kanna styrki til flokka

Sjávarútvegsfyrirtæki á Íslandi gefa töluverða peninga til stjórnmálaflokka á Íslandi. Margrét Tryggvadóttir vill láta athuga hvort lög um styrkveitingar hafi verið brotin. fréttablaðið/gva
Sjávarútvegsfyrirtæki á Íslandi gefa töluverða peninga til stjórnmálaflokka á Íslandi. Margrét Tryggvadóttir vill láta athuga hvort lög um styrkveitingar hafi verið brotin. fréttablaðið/gva
Styrkveitingar sjávarútvegsfyrirtækja til stjórnmálaflokka verða teknar fyrir á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis eftir þingsetningu í næstu viku. Enn á eftir að finna dagsetningu fyrir fundinn.

Margrét Tryggvadóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, hefur óskað eftir því að nefndin verði kölluð saman til að fjalla um meint brot Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar og Framsóknarflokks á lögum um fjármál stjórnmálasamtaka.

Málið snýst um styrki sem flokkarnir þáðu árið 2010 frá Samherja hf., Síldarvinnslunni og Gjögri hf. Samherji átti þá 45 prósenta hlut í Síldarvinnslunni og Gjögur 34 prósenta hlut. Stjórnmálaflokkum er heimilt að þiggja styrki sem nema að hámarki 400 þúsund krónum. Séu eignatengsl milli fyrirtækja mega þau samanlagt aðeins veita þessar 400 þúsund krónur.

Sjálfstæðisflokkurinn þáði 900 þúsund krónur árið 2010 frá þessum þremur fyrirtækjum. Árið áður var hámarksstyrkveiting 300 þúsund krónur. Þá gáfu fyrirtækin þrjú 300 þúsund krónur hvert til Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokkurinn þáði 550 þúsund krónur frá fyrirtækjunum og Samfylkingin 600 þúsund.

Vinstri grænir þáðu aðeins fimm þúsund krónur frá sjávarútvegsfyrirtækjum árið 2009 og fimmtíu þúsund árið 2010.

„Það er fyrst og fremst starfsmanna stjórnmálaflokkanna að tryggja að ekki sé verið að brjóta lög,“ segir Sveinn Arason, ríkisendurskoðandi, spurður hver þurfi að axla ábyrgð á styrkþágu umfram hámarkið.

Fjárskortur hamli því hins vegar að hægt sé að vinna verkið eins vel og ætlast sé til hjá Ríkisendurskoðun. „Við reynum að sinna okkar eftirliti eins og við höfum tök á því við höfum aldrei fengið krónu til að sinna þessu verkefni,“ bendir Sveinn á. Ríkisendurskoðandi hefur ekki fengið boð um að koma fyrir eftirlitsnefndina en Sveinn býst við því á næstu dögum.birgirh@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×