Innlent

Smærri lönd líka með

Jón Guðnason hjá HR og Trausti Kristjánsson hjá Google kynna Almannaróm. Fréttablaðið/Valli
Jón Guðnason hjá HR og Trausti Kristjánsson hjá Google kynna Almannaróm. Fréttablaðið/Valli
Verkefnið Almannarómur, samstarf tæknirisans Google, Háskólans í Reykjavík (HR) og Máltækniseturs, var frumraun samstarfs sem gerir fólki á smáum málsvæðum kleift að nýta sér raddleit Google (e. Voice Search) í snjallsímum. Íslenska er meðal þrettán nýrra tungumála sem bætt var við raddleitina um miðjan ágúst.

Jón Guðnason, lektor við tækni- og verkfræðideild HR, segir Trausta Kristjánsson, sem starfi hjá Google, hafa ýtt á að íslenskan fengi að vera með. Þannig hafi Trausti stungið upp á því að Google byggi til aðstöðu fyrir minni tungumál og háskólar og stofnanir á þeim svæðum önnuðust gagnaöflun. "Íslenska var eiginlega fyrsta tungumálið í því átaki," segir Jón.

Í fyrrahaust segir Jón svo að hafist hafi verið handa við að safna þeim rúmlega 123 þúsund raddsýnum frá 563 einstaklingum sem til þurfti. Raddsýnin mynda svo gagnasafn sem hefur að geyma hljóðskrár og textaskrár og gerir tölvu kleift að skilja talmál.

Með raddleitinni getur fólk svo leitað á netinu með því að tala við símann í stað þess að skrifa. "Þessi tækni er náttúrlega stórkostleg og býður upp á svo marga aðra möguleika," segir Jón. Þannig gæti tæknin síðar nýst heyrnarlausum með því að jafnóðum mætti texta fyrir þá talað mál. - óká




Fleiri fréttir

Sjá meira


×