Erlent

Voðaverk framin í skjóli aðgerðaleysis

Þrír sýrlenskir lögreglumenn í höndum uppreisnarmanna.
Þrír sýrlenskir lögreglumenn í höndum uppreisnarmanna. nordicphotos/AFP
„Að mínu mati er það einungis tímaspursmál hvenær ríkisstjórn sem beitir svona öflugum hernaðarmætti og hemjulausu ofbeldi gegn almenningi fellur,“ sagði norski herforinginn Robert Mood við fréttastofuna Reuters.

Mood er nýhættur sem yfirmaður friðargæsluliðs Sameinuðu þjóðanna í Sýrlandi, en lét þau orð falla nýverið að tilgangslítið sé að vera með friðargæslulið þar í landi því hvorki stjórnarherinn né uppreisnarmenn virðist hafa minnsta áhuga á að virða samkomulag um vopnahlé.

Harðir bardagar hafa geisað síðustu daga í Aleppo, næststærstu borg landsins, og eru bæði stjórnarherinn og uppreisnarmenn að búa sig undir enn harðari átök þar.

Stjórnarherinn hefur verið að flytja þungavopn og skriðdreka til borgarinnar.

Bæði Sameinuðu þjóðirnar og Bandaríkin hafa varað við því að stórfelldar árásir á almenning séu yfirvofandi á næstunni.

Navi Pillay, mannréttindafulltrúi Sameinuðu þjóðanna, segir að nú þegar hafi borist fregnir af margvíslegum voðaverkum og mannréttindabrotum í höfuðborginni Damaskus, þar sem harðir bardagar voru í nokkra daga. Þessar fregnir boði ekki gott fyrir íbúa í Aleppo. Hún hvetur bæði stjórnarherinn sem uppreisnarmenn til þess að hlífa almennum borgurum.

Hún segist sannfærð um að bæði stjórnarherinn og uppreisnarmenn séu að fremja glæpi gegn mannkyni og stríðsglæpi: „Og það þarf ekki að taka það fram að þegar þungavopnum, skriðdrekum, árásarþyrlum og – eftir því sem sagt er – jafnvel orrustuþotum er beitt í auknum mæli á borgarhverfi hefur það nú þegar kostað marga almenna borgara lífið og mörgum öðrum er stefnt í hættu.“

Þegar Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, kom til Srebrenica í Bosníu á fimmtudag varaði hann við því að svipuð voðaverk geti verið í uppsiglingu í Sýrlandi á næstu dögum eins og þau sem framin voru í Srebrenica árið 1995.

„Alþjóðasamfélagið verður að standa saman um að ekkert frekara blóðbað verði í Sýrlandi, því ég vil ekki að einhver eftirmanna minna komi til Sýrlands eftir 20 ár að biðjast afsökunar því það sem við hefðum getað gert til að verja almenning, það erum við ekki að gera núna,“ sagði hann.

gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×