Innlent

Telja lögfræðing Orkustofnunar vanhæfan

Skúli Thoroddsen
Skúli Thoroddsen
Skúli Thoroddsen, lögfræðingur Orkustofnunar, er vanhæfur til að fjalla um virkjanahugmyndir rammaáætlunar.

Þetta er mat Guðmundar Harðar Guðmundssonar, formanns Landverndar, sem sendi þingmönnum í atvinnuveganefnd og umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis og Guðna A. Jóhannessyni orkumálastjóra bréf þess efnis í gær.

Að mati Guðmundar hefur Skúli gert sig vanhæfan til að taka þátt í hlutlægri afgreiðslu Orkustofnunar um virkjanahugmyndir „með eindregnum yfirlýsingum um einstaka virkjanahugmyndir og virkjanamál almennt“, að því er segir í bréfinu. Þar er vísað til ummæla Skúla síðan í fyrravor, þar sem hann sagði meðal annars á heimasíðu sinni að mikilvægt væri að ríkið ýtti undir frekari virkjanaframkvæmdir, meðal annars í neðri hluta Þjórsár.

„Þess vegna er enn mikilvægara að ríkisvaldið beiti sér sérstaklega fyrir stórátaki og þá dugir ekki bara stækkun álversins í Straumsvík, Búðarhálsvirkjun, kísilmálmverksmiðja í Helguvík, hreinkísilverksmiðja í Grindavík og natríumklóratverksmiðja á Grundartanga,“ ritaði Skúli á heimasíðu sinni. „Betur má ef duga skal. Nærtækasta og öflugasta verkefnið er enn og aftur álverið í Helguvík, en þá þarf að virkja í neðri hluta Þjórsár.“

Formaður Landverndar fer fram á að umsögn Orkustofnunar um rammaáætlun verði dregin til baka í ljósi þessa og að hún verði unnin af óhlutdrægu fagfólki stofnunarinnar.- sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×