Innlent

Staða íslenska laxins góð í alþjóðlegu tilliti

Þórarinn Sigþórsson tannlæknir rennir 15 punda laxi aftur í hylinn.
Þórarinn Sigþórsson tannlæknir rennir 15 punda laxi aftur í hylinn. mynd/Stefán Sigurðsson
Íslenski laxastofninn stendur frekar vel. Af 400 laxám í Noregi hefur verið lokað fyrir veiði í 124 ám. Vestanhafs er Atlantshafslax á lista yfir dýr í útrýmingarhættu. Mjög misjafnt er milli landa hversu miklu af veiddum laxi er sleppt.

Ástand íslenska laxastofnsins er heilt yfir í ágætu lagi varðandi smálaxa, en áhyggjur eru af stórlaxi, einkum á Suður- og Vesturlandi. Staða stofnsins er góð samanborið við sambærilega stofna í Evrópu og Norður-Ameríku. Norðmenn hafa lokað fyrir veiði í 124 ám af rúmlega 400. Í Bandaríkjunum er öllum veiddum laxi sleppt aftur enda er hann á lista yfir dýr í útrýmingarhættu.

Þetta er meðal þess sem kom fram í erindi Guðna Guðbergssonar, sérfræðings hjá Veiðimálastofnun, á ársfundi stofnunarinnar fyrir skemmstu.

Guðni sagði að veiði úr laxastofnum heimsins á áttunda áratugnum hafi skilað 12 þúsund tonna afla. Síðan hefur veiði snarminnkað og veiðin árið 2011 var um 1.600 tonn. Veiði hefur minnkað á öllum svæðum en hnignunin er mun meiri á suðlægum svæðum en þeirra sem liggja norðar. Veiðin í sunnanverðri Evrópu er komin úr 4.500 tonnum niður í 500 tonn en í norðanverðri Evrópu, Noregi, Rússlandi og Finnlandi voru sambærilegar tölur 2.500 tonn en er núna um þúsund tonn. Veiði í stofnum í Kanada snarminnkaði og eins í Bandaríkjunum þar sem litið er á Atlantshafslax sem tegund í útrýmingarhættu. Þar hefur gríðarleg fiskirækt verið stunduð um árabil og má í raun segja að laxinn sé „í gjörgæslu“ þar í landi.

Það veiðifyrirkomulag að veiða og sleppa laxi er umdeilt, en þó færist þetta fyrirkomulag sífellt í vöxt. Guðni birti tölur þar sem fram kemur að í Bandaríkjunum er öllum laxi sleppt, enda ástand stofna skelfilegt. Rússar sleppa 80 til 85 prósentum af veiddum laxi og 60 til 65 prósentum er sleppt í Englandi og Wales. Írar sleppa um 40 prósentum af sínum laxi líkt og við Íslendingar. Norðmenn sleppa hins vegar innan við tíunda hverjum laxi.

Gjarnan er litið til Noregs til að leita samanburðar við stöðu íslenska laxastofnsins en þar í landi hefur verið lokað fyrir veiði í 124 ám af um 400, en íslenskar ár eru um 120. Er talið að veiðiréttarhafar tapi um 6,5 milljörðum króna á ári vegna lokananna. Veiðiréttarhafar kenna laxeldi um en fiskeldismenn telja að ástæðurnar séu fjölþættari.

Guðni vék að auknum áhuga á laxeldi í sjó hér á landi og að nauðsynlegt væri að taka tillit til reynslu Norðmanna. Krafan sé að engir laxar sleppi úr kvíum, en það er óraunhæft enda sýna rannsóknir að minnst einn lax sleppur út fyrir hvert tonn sem er alið.

svavar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×