Innlent

Íslenskir unglingar ánægðir með líf sitt

Lífsánægja mælist einna mest meðal unglinga hér á landi, en í öllum löndum er hlutfall ánægðra drengja í 10. bekk hærra en stúlkna. Myndin tengist ekki efni fréttarinnar.Fréttablaðið/Stefán
Lífsánægja mælist einna mest meðal unglinga hér á landi, en í öllum löndum er hlutfall ánægðra drengja í 10. bekk hærra en stúlkna. Myndin tengist ekki efni fréttarinnar.Fréttablaðið/Stefán
 Íslenskir unglingar eru með þeim ánægðustu í heimi. Um 95 prósent unglinga hér á landi segjast ánægðir með líf sitt, samkvæmt niðurstöðum nýrrar, alþjóðlegrar rannsóknar sem birt verður í dag.

Einnig er lífsánægja finnskra, belgískra og hollenskra ungmenna með því mesta sem gerist. Rannsóknin, Heilsa og lífskjör skólabarna (Health and Behaviour in School-aged Children, HBSC), var gerð í 43 samanburðarlöndum í Evrópu og Norður-Ameríku. Alls tóku um 200 þúsund unglingar þátt. Á Íslandi var spurningalisti könnunarinnar lagður fyrir tæplega tólf þúsund nemendur í 6., 8. og 10. bekk, sem jafngildir 87 prósentum af heildarfjölda nemenda í þessum bekkjardeildum landsins.

Nær allir hollenskir unglingar segjast ánægðir með líf sitt, en hlutfallið er hæst þar í landi. Greinilegt er að munur á lífsánægju kynjanna eykst með aldrinum, en meðal unglinga í 10. bekk voru drengir ánægðari en stelpur í öllum þátttökulöndunum.

Könnunin var lögð fyrir hér á landi af Rannsóknarsetri forvarna við Háskólann á Akureyri (HA). Hún er styrkt af Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni og er ætlað veita innsýn í þætti sem stýra heilsu og vellíðan unglinga.

Ársæll Arnarsson, prófessor í sálfræði við HA, segir áhugavert að fá þessar niðurstöður til umræðu í samfélaginu í dag.

„Þetta eru að mörgu leyti ánægjulegar og mikilvægar upplýsingar,“ segir hann. „Íslendingar hafa gengið í gegnum efnahagslegar þrengingar og er gott að sjá að þrátt fyrir það líður unglingunum okkar flestum mjög vel. Þó hlýtur slakari útkoma eldri stúlkna bæði að vekja fólk til spurninga og athafna.“

Ársæll segir lífsánægju mikilvægan þátt í líðan unglinga, sem ræðst af reynslu og tengslum þeirra við aðra. Góð samskipti við foreldra og vini hjálpi unglingum að takast á við breytingar og yfirstíga vandamál.

„Skólinn hefur einnig mikil áhrif á lífsánægju ef börnunum gengur og líður vel í honum. Hamingjusöm æska skilar sér svo í betri félagshæfni og bjargráðum síðar á ævinni.“

Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar líður tyrkneskum, ungverskum, pólskum og grænlenskum unglingum verst af þjóðunum 48.

sunna@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×