Innlent

Margfalt meira efni textað nú til dags

RÚV textar nær fimmtán sinnum meira innlent efni í dag en fyrir tíu árum síðan.
RÚV textar nær fimmtán sinnum meira innlent efni í dag en fyrir tíu árum síðan. Fréttablaðið/GVA
Textun á innlendu sjónvarpsefni á RÚV hefur tæplega fimmtánfaldast á síðustu tíu árum. Árið 2002 voru um sautján klukkustundir af íslensku efni textaðar í sjónvarpinu en árið 2011 voru þær 248.

Þetta kemur fram í svari Katrínar Jakobsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, við fyrirspurn Margrétar Tryggvadóttur, þingmanns Hreyfingarinnar. Margrét spurði ráðherra eftir hvaða reglum RÚV færi við textun á innlendu sjónvarpsefni til að auðvelda heyrnarskertum að fylgjast með og hvort hún teldi reglurnar fullnægjandi.

Í skriflegu svari Katrínar segir að Ríkisútvarpið hafi náð því markmiði að texta alla forunna innlenda þætti, líkt og kveður á um í lögum. Þó telur ráðherra að það megi alltaf gera betur.

„Komið hefur fyrir að textaborðar hafi gleymst við útsendingar vegna óvæntra atburða. Þá eru endursýningar mikilvægra funda, sem búið er að texta, stundum sýndar seint að kveldi. Beinar útsendingar eru ekki textaðar, og á það til dæmis við um fréttir og spjallþætti,“ segir ráðherra í skriflegu svari sínu til Margrétar.- sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×