Innlent

Vænn kolmunni á stóru svæði

Ef vel gengur og veður er hagstætt er veiðiferðin um vika.
Ef vel gengur og veður er hagstætt er veiðiferðin um vika. mynd/hbgrandi
Vænn kolmunni veiðist á stóru svæði en skip HB Granda hafa verið á veiðum syðst í færeysku lögsögunni undanfarna daga. Þangað er um 35 klukkustunda sigling enda er veiðisvæðið 430 sjómílum frá Vopnafirði þar sem skipin landa.

Faxi RE kom til hafnar á Vopnafirði í gærmorgun með fullfermi eða um 1.450 til 1.500 tonn. Að sögn Hjalta Einarssonar, skipstjóra í veiðiferðinni, í viðtali á heimasíðu fyrirtækisins voru skip víða að veiðum á svæðinu. Hjalti segir að kolmunninn virðist ekki þétta sig í torfur og algengur afli eftir níu til tíu tíma hol er því um 300 til 350 tonn.

„Við hófum veiðar eftir miðnætti 13. apríl og framan af tókum við fremur stutt hol því þá var stefnt að því að landa aflanum til frystingar í Færeyjum. Frá því var horfið vegna erfiðleika með landanir og við lengdum því holin og aflinn var ágætur. Kolmunninn er vænn og meðalþyngdin hjá okkur er um 160 til 170 grömm sem þykir gott,“ segir Hjalti.

Von var á Ingunni AK til Vopnafjarðar í gærkvöldi með fullfermi. Veiðar skipsins töfðust þó eftir að flottrollið skemmdist, en toghlerar rússnesks togara rákust í troll Ingunnar. Lundey NS, sem er væntanleg með fullfermi til Vopnafjarðar í dag, var með aukatroll um borð sem skipverjar á Ingunni gátu sett undir og lokið veiðum. - shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×