Innlent

Níu mál tengd Landsbanka til rannsóknar

Ólafur Þór Hauksson var einn þeirra sex frá embættinu sem fóru utan til að taka þátt í aðgerðunum.
Ólafur Þór Hauksson var einn þeirra sex frá embættinu sem fóru utan til að taka þátt í aðgerðunum. fréttablaðið/stefán
Embætti sérstaks saksóknara framkvæmdi húsleitir á þremur stöðum í Lúxemborg í gær í tengslum við rannsókn embættisins á meintri markaðsmisnotkun og umboðssvikum innan gamla Landsbankans fyrir bankahrun. Sex manns frá embættinu flugu utan í gærmorgun og nutu aðstoðar 24 starfsmanna rannsóknarlögreglunnar í Lúxemborg við húsleitirnar. Fréttastofa Stöðvar 2 skýrði fyrst frá málinu í gærkvöldi.

Að sögn Ólafs Þórs Haukssonar, sérstaks saksóknara, var leitað á skrifstofum tveggja fyrirtækja og á skrifstofu þrotabús Landsbankans. Leit á skrifstofum þrotabúsins stóð enn yfir þegar Fréttablaðið fór í prentun en leit á hinum tveimur stöðunum var lokið. Enginn var handtekinn í tengslum við aðgerðirnar.

Þær tengjast alls níu mismunandi málum og byggja á þremur réttarbeiðnum sem lagðar voru fram sumarið 2011. Á meðal þeirra mála eru fjögur mál sem lágu til grundvallar húsleitum og handtökum hérlendis í janúar 2011. Þau mál eru: 1) meint markaðsmisnotkun Landsbanka Íslands með hlutabréf útgefin af bankanum, 2) lánveitingar til félaganna Hunslow S.A., Bruce Assets Limited, Pro-Invest Partners Corp og Sigurðar Bollasonar ehf. til kaupa á hlutabréfum í Landsbankanum, 3) kaup Landsbankans á lánasafni Landsbankans í Lúxemborg og 4) kaup á hlutabréfum í bankanum af hálfu félaga sem héldu um kauprétti starfsmanna Landsbankans og lánveitingar til þeirra félaga.-þsj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×