Innlent

Skuldurum hjálpað í gegnum barnabætur

Börn í Ísaksskóla.
Börn í Ísaksskóla. Mynd/Valgarður
Til stendur að hækka barnabætur til að bregðast við þeim skuldavanda sem barnafjölskyldur standa frammi fyrir. Samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins liggja endanlegir útreikningar ekki fyrir og er því of snemmt að segja til um með hvaða hætti breytingarnar verði.

Steingrímur J. Sigfússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, segir hækkun barnabóta vissulega geta verið liður í því að aðstoða barnafjölskyldur í greiðsluvanda.

„Þetta er eitt af því sem eðlilega kemur til greina að skoða," segir hann. „Það er lógískt að áætla að barnafjölskyldur lendi í greiðsluvanda. Þetta er ekki endilega lágtekjufólk, heldur teygir þetta sig inn í millitekjuhópana líka."

Lífeyrissjóðirnir eru nú að taka vinnu starfshóps um lánsveð til skoðunar. „Við erum að fara að funda með þeim og bönkunum. Hitt er í vinnslu og margt annað samhliða," segir hann.

Hvorki Steingrímur né Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra vildu staðfesta það við Fréttablaðið að endanleg ákvörðun lægi fyrir.

Hagfræðingar Seðlabankans birtu nýverið skýrslu um áhrif aðgerða stjórnvalda á skuldavanda heimilanna. Þar kemur fram að barnafjölskyldur í millitekjuhóp og barnlausir einstæðingar með litlar eða engar tekjur eigi í mestum vanda.

„Það hefur verið ítrekað að 30 prósent af fjölskyldum og einstaklingum eru ekki með íbúðarskuldir, heldur eru í leiguhúsnæði og eru í vanda vegna annarra lána," segir Guðbjartur. „Þess vegna erum við að skoða hvar hægt er að grípa inn í. Það er margt uppi á borðinu og þar hafa barnabætur verið ræddar."

Ráðherrahópur úr velferðar-, innanríkis-, efnahags- og viðskipta- og fjármálaráðuneytinu vinnur nú að greinargerð um stöðu og þróun á greiðslu- og skuldavanda heimilanna.

Samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins kemur ekki til greina að ráðast í flata niðurfellingu skulda, en í skýrslu Seðlabankans kemur fram að slíkt hafi reynst afar óskilvirkt og dýrt á sama tíma. -sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×