Innlent

Vilja völl til að byggja upp rugby-íþróttina

Kristinn Þór Sigurjónsson, formaður Rugby Ísland, telur þetta svæði við Suðurlandsbraut eitt af mörgum sem gætu hentað vel fyrir rugby-völl og aðstöðu.
fréttablaðið/stefán
Kristinn Þór Sigurjónsson, formaður Rugby Ísland, telur þetta svæði við Suðurlandsbraut eitt af mörgum sem gætu hentað vel fyrir rugby-völl og aðstöðu. fréttablaðið/stefán
„Við erum ekki að biðja um peninga heldur einungis svæði til að vinna með. Það er algjört lykilatriði að fá slíku svæði úthlutað, því þá skapast möguleiki til að sækja um styrki til Alþjóða rugbysambandsins, Rugbysambands Evrópu og víðar. Við fáum ekki styrki til að byggja upp aðstöðu ef við höfum ekki svæði til að byggja aðstöðu á,“ segir Kristinn Þór Sigurjónsson, formaður Rugby Ísland, félagasamtaka sem hafa það að markmiði að byggja upp rugby-íþróttina á Íslandi með ýmsum hætti.

Samtökin hafa meðal annars á stefnuskránni að kynna íþróttina í skólum og íþróttafélögum, auk þess að styðja við íslensk rugby-lið og halda mót.

Rugby Ísland hefur farið þess á leit við Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur (ÍTR) að samtökunum verði fundið landsvæði þar sem mögulegt verði að byggja rugby-völl og þjónustusvæði umhverfis hann. Um fimmtíu manns eru skráðir og virkir þátttakendur í íþróttinni hér á landi í tveimur félögum, Rugbyfélagi Reykjavíkur og Rugbyfélagi Kópavogs. Æfingar á íþróttinni hérlendis má rekja til ársins 2009 og hingað til hafa iðkendur æft og keppt á knattspyrnusvæði Vals að Hlíðarenda.

Í desember síðastliðnum var umsókn Rugby Íslands um reynsluaðild að Rugbysambandi Evrópu samþykkt og segir Kristinn Þór næsta skref að taka þátt í mótum á þeirra vegum. Í þeirri viðleitni sé lykilatriði að búa yfir löglegum heimavelli til að taka á móti erlendum liðum.

„Við höfum kannað málið og sjáum mörg svæði í borginni sem nýta mætti undir slíka aðstöðu, til að mynda í Gufunesi, Mjóddinni og við Suðurlandsbraut. Við höfum fundað með forsvarsmönnum ÍTR og viðtökurnar voru góðar við erindi okkar. Við munum funda aftur fljótlega og vonandi fara þessi mál þá á skrið,“ segir Kristinn.

Hann bætir við að Ísland komi ekki til með að keppa á Evrópumóti í ár, en ef úrlausnir fáist með svæði fyrir heimavöll kæmi vel til greina að skrá sig til leiks á næsta ári.

kjartan@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×