Innlent

Vilja skýr svör um bótaskyldu

Díoxín fannst í kjöti, mjólk og fóðri með þeim afleiðingum að bændur misstu lífsviðurværi sitt.fréttablaðið/rósa
Díoxín fannst í kjöti, mjólk og fóðri með þeim afleiðingum að bændur misstu lífsviðurværi sitt.fréttablaðið/rósa
Þrír bændur telja að Ísafjarðarbær beri ábyrgð á því tjóni sem þeir urðu fyrir af völdum díoxín-mengunar frá sorpbrennslustöðinni Funa í Engidal. Lögmaður bændanna hefur skrifað Ísafjarðarbæ, sem átti og rak Funa, og óskað eftir afstöðu sveitarfélagsins til bótaskyldu.

Í bréfinu segir einnig að bændurnir hafi orðið fyrir miklu tjóni vegna mengunarinnar. Næstu vikur og mánuðir fari í að meta tjónið og ekki sé ósennilegt að leita þurfi til dómkvaddra matsmanna, náist ekki samkomulag við sveitarfélagið.

Eftir að málið kom upp þurfti að slátra öllu búfé á bænum Efri-Engidal og Kirkjubóli í Skutulsfirði. Auk þess þótti nauðsynlegt að slátra sjö kálfum frá Neðri-Hjarðardal í Dýrafirði þar sem þeir komu allir frá Efri-Engidal. Fengu bændurnir ekkert greitt fyrir afurðirnar enda var þeim fargað.

Hinn 11. janúar síðastliðinn var aflétt banni á nýtingu fóðurs frá svæðinu. „Niðurstöðurnar breyta hins vegar engu um þann búfénað sem var eða er mengaður, né heldur breyta niðurstöðurnar banni á nýtingu eldra fóðurs frá Engidal. Áfram er því bann við nýtingu afurða þeirra dýra sem alin voru á fóðri frá svæðinu þegar mengunin var meiri en nú er,“ segir í bréfi lögmannsins til sveitarfélagsins.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur óskað eftir umsögn Andra Árnasonar, bæjarlögmanns Ísafjarðarbæjar, um málið. - shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×