Innlent

Fréttaskýring: Skiptar skoðanir um sameiningar í grunnskólum

Foldaskóli Frá og með haustinu munu unglingar í 8. til 10. bekk úr bæði Hamraskóla og Húsaskóla flytjast yfir í Foldaskóla.
Foldaskóli Frá og með haustinu munu unglingar í 8. til 10. bekk úr bæði Hamraskóla og Húsaskóla flytjast yfir í Foldaskóla. fréttablaðið/gva
Sameiningar grunnskóla í Reykjavík hófust um áramót þegar þrír nýir skólar urðu til úr sex. Fleiri breytingar eru á döfinni og foreldrar í sumum hverfum hafa verið mjög ósáttir við fyrirhugaðar breytingar.

Hvernig ganga sameiningar grunnskóla í Reykjavík?

Sex grunnskólar í Reykjavík voru um áramótin sameinaðir í þrjá. Að auki stendur til að leggja niður unglingadeildir í tveimur grunnskólum. Breytingarnar eru hluti af viðameiri breytingum í skólamálum á grunn- og leikskólastigi.

Mestu breytingarnar koma til framkvæmda í Grafarvogi. Búið er að sameina Borgaskóla og Engjaskóla í Vættaskóla auk þess sem Korpuskóli og Víkurskóli hafa sameinast í Kelduskóla. Þá munu unglingadeildir Hamraskóla og Húsaskóla leggjast af á næsta skólaári og börn úr hverfunum munu færast í Foldaskóla.

Foreldrar barna í Hamra- og Húsaskóla hafa margir verið ósáttir við þessar breytingar. Tveir foreldrar hafa sagt sig úr stýrihóp sem hefur umsjón með breytingunum og fjölmennur fundur í síðustu viku fór fram á að hætt yrði við sameininguna. Kristinn Breiðfjörð Guðmundsson, skólastjóri Foldaskóla, veit af óánægju foreldra í hverfunum, en segir aðspurður að foreldrar barna í Foldaskóla séu ekki eins óánægðir. „Eitt af því sem hefur verið ásteytingarsteinn er sérdeild sem er í Hamraskóla,“ segir Kristinn. Foreldrar hafa lýst yfir áhyggjum af afdrifum deildarinnar, en hún mun að öllum líkindum flytjast yfir í Foldaskóla. „Hópur sem skipaður er tveimur frá skóla- og frístundasviði borgarinnar og tveimur foreldrum er nú að fara yfir þessi mál.“

Jóhanna S. Vilbergsdóttir, skólastjóri nýs Vættaskóla, segir sameiningarferlið þar hafa gengið vel. Frá og með næsta hausti mun ein sameiginleg unglingadeild verða við skólann, en unglingar þurfa að sækja tíma á báðum stöðum. „Hér er jákvæðni og bjartsýni, þó að sjálfsögðu fylgi svona breytingum alltaf óöryggi. Við erum í upphafsskrefum í mikilli faglegri stefnumótun og erum að vinna í því. Unglingarnir voru með skólaþing og foreldrar og starfsmenn héldu líka skólaþing. Starfsmenn og stjórnendur eru á stefnumótunarfundum og við erum að vinna að þessu jafnt og þétt,“ segir Jóhanna. Hún segist ekki hafa heyrt af mörgum ósáttum foreldrum þó hún viti að einhverjir séu það. „En ég veit líka af gríðarlega stórum hópi sem er mjög ánægður og sér rökin fyrir þessu.“

Korpuskóli og Víkurskóli hafa verið sameinaðir í Kelduskóla. Engin unglingadeild hefur verið í Korpuskóla og hafa unglingar þaðan því stundað nám í Víkurskóla frá árinu 2008, að sögn Árnýjar Ingu Pálsdóttur skólastjóra. Engin breyting verður þar á. „Við erum bara að vinna að okkar stefnumótun um framtíðarsýn um nýjan Kelduskóla, við höfum haldið góðan fund með foreldrum og starfsfólki og ætlum að gefa okkur góðan tíma og vanda okkur vel í þessu,“ segir hún.

Um áramótin sameinuðust svo Hvassaleitisskóli og Álftamýrarskóli í Háaleitisskóla. Unglingadeild Hvassaleitisskóla verður felld niður í haust og unglingar þaðan munu geta haldið áfram í Háaleitisskóla í Álftamýri eða farið í Réttarholtsskóla. Foreldrar í Hvassaleitisskóla voru upphaflega margir ósáttir við áformin. „Ég finn ekki annað en samhug um að láta þetta ganga upp barnanna vegna,“ segir Brynhildur Ólafsdóttir, skólastjóri Háaleitisskóla. „Við erum búin að eiga einn stefnumótunarfund með foreldrum, einn með nemendum og einn með starfsfólki. Svo heldur þetta áfram fram á vorið og auðvitað tekur þetta einhver ár svona endanlega, en við stefnum á að vera einn skóli í haust.“

thorunn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×