Innlent

Dýrt að valda tjóni við björgun

Björgunarsveitir verða árlega fyrir talsverðum útgjöldum vegna skemmda á bílum sem dregnir eru úr snjósköflum eða forarvilpum.
Mynd/Einar Eysteinsson
Björgunarsveitir verða árlega fyrir talsverðum útgjöldum vegna skemmda á bílum sem dregnir eru úr snjósköflum eða forarvilpum. Mynd/Einar Eysteinsson
Björgunarsveitir bera ábyrgð á skemmdum sem verða á bílum sem draga þarf úr snjósköflum og ófærum. Sveitirnar þurfa að borga á annað hundrað þúsund krónur fyrir hvern bíl sem skemmist, ákveði eigandi bílsins að sækja rétt sinn til tryggingarfélagsins.

„Það er auðvitað dapurlegt að vera að aðstoða samborgarana, í umboði lögreglunnar, og fá svo á sig kostnaðinn ef eitthvað gerist,“ segir segir Gunnar Stefánsson, sviðsstjóri björgunar- og slysavarnarsviðs hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu.

Verði tjón á bíl sem björgunarsveitir draga úr skafli eða ófæru á eigandi bílsins kröfu á björgunarsveitina. Sveitirnar eru tryggðar fyrir tjóninu, en þurfa að borga sjálfsábyrgð sem er yfirleitt á bilinu 100 til 170 þúsund krónur, segir Gunnar. Þessi kostnaður fellur á þá björgunarsveit sem á bílinn sem veldur tjóninu. Gunnar segir kostnaðinn geta sett öll áform björgunarsveita í uppnám, sérstaklega minni sveita sem hafi oft takmarkaða möguleika til að fjármagna starfsemi sína.

Hann segir að vegna þessarar áhættu kjósi sumar björgunarsveitir frekar að bjarga fólki úr föstum bílum og skilja bílana eftir. Það sé þó á endanum ákvörðun hvers bílstjóra á bílum björgunarsveitanna. Menn velti þessum möguleika óneitanlega fyrir sér.

Landsbjörg hefur ítrekað óskað eftir því við stjórnvöld og þingmenn að björgunarsveitirnar fái undanþágu í lögum svo tjón af þessu tagi falli ekki á sveitirnar séu þær við björgunarstörf, án þess að það hafi náð inn í nefndir þingsins, hvað þá lengra.

- bj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×