Innlent

Gæti skilað inn 12,5 milljónum á ári

Um 1.800 aðgangspassar voru gefnir út fyrir starfsfólk Keflavíkurflugvallar á síðasta ári. Fréttablaðið/Pjetur
Um 1.800 aðgangspassar voru gefnir út fyrir starfsfólk Keflavíkurflugvallar á síðasta ári. Fréttablaðið/Pjetur
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra leggur til að fyrirtæki á Keflavíkurflugvelli borgi um fimm þúsund krónur fyrir hverja bakgrunnsskoðun starfsmanna sinna. Talið er að fjöldi skoðana sé um 2.500 talsins sem skili um 12,5 milljónum króna á ársgrundvelli. Ráðherra mælti fyrir gjaldtökunni, sem felur í sér breytingu á lögum um loftferðir, á ríkisstjórnarfundi í gær.

Veruleg fjölgun hefur orðið á útgáfu svokallaðra aðgangspassa fyrir starfsmenn Keflavíkurflugvallar og áhafnir flugfélaga vegna hertra reglna innan EES. Til að fá slíkan passa þarf lögreglan á Suðurnesjum að kanna bakgrunn viðkomandi starfsmanns og hefur þessi mikla fjölgun athugana það í för með sér að lögreglan hefur ekki lengur bolmagn til að sinna verkefninu nema því fylgi fjármagn.

Samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu er því lagt til að kostnaður greiðist af fyrirtækjum fyrir hverja bakgrunnsskoðun. Friðþór Eydal, talsmaður Isavia, segir fyrirtækið fagna tillögunni í ljósi þess að það finnist lausn á þeim töfum sem nú hafa orðið við útgáfu passanna. „Þessa vinnu þarf að manna og vinna kostar peninga,“ segir hann.- sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×