Innlent

Bílnúmerið ógreinilegt á upptökunni

Lögregla lítur málið mjög alvarlegum augum og hefur lagt mikið kapp á að finna sprengjumanninn.

Fréttablaðið/stefán
Lögregla lítur málið mjög alvarlegum augum og hefur lagt mikið kapp á að finna sprengjumanninn. Fréttablaðið/stefán
Lögreglu hafði í gærkvöldi enn ekki tekist að hafa hendur í hári þess sem talinn er hafa sprengt heimatilbúna sprengju á Hverfisgötu snemma á miðvikudagsmorgun.

Vitni hefur greint frá því að skömmu eftir að sprengjan sprakk hafi það séð lágvaxinn, feitlaginn mann á miðjum aldri hlaupa af vettvangi og aka brott á litlum, hvítum sendiferðabíl.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins sýnir upptaka úr öryggismyndavél skammt frá mann á hlaupum setjast upp í bíl og aka á brott. Vettvangurinn sjálfur og sprengingin sést hins vegar ekki á upptökum.

Lögregla telur yfirgnæfandi líkur á að maðurinn á myndskeiðinu beri ábyrgð á sprengingunni og hefur lagt mikið kapp á að hafa uppi á honum. Á upptökunni er auðvelt að greina gerð bílsins en bílnúmerið er ógreinilegra og það hefur torveldað leitina.

Athygli hefur vakið að lögregla kom ekki á vettvang og girti af svæðið í kringum hann fyrr en um tveimur klukkustundum eftir að fyrsta ábending barst um sprenginguna.

Jón Bjartmarz, yfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóra, segir að mistök hafi valdið því að fyrsta ábendingin var ekki tekin nógu alvarlega. Þau vinnubrögð verði könnuð sérstaklega. - sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×