Innlent

550 sílíkonaðgerðir á ári

Árlega láta að minnsta kosti 550 konur hér á landi stækka á sér brjóstin eða endurnýja gamlar sílíkonfyllingar. Er þessi fjöldi miðaður við síðustu þrjú ár. Hlutfall endurnýjana getur verið allt að fjórðungur af heildartölunni, en oftast er mælst til þess að púðar séu endurnýjaðir á fimm til tíu ára fresti. Brjóstastækkun kostar á bilinu 400 til rúmlega 520 þúsund krónur.



Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hefur innflutningur á sílíkonpúðum til fegrunaraðgerða stóraukist á síðustu árum. Sala á púðum til lýtalækna tók stökk árið 2010, þegar rúmlega 550 pör voru flutt til landsins. Árin áður voru að minnsta kosti um 350 pör flutt inn. Er þetta fyrir utan hina umdeildu PIP-púða, sem lýtalæknirinn Jens Kjartansson flutti inn á árunum 2000 til 2010 og setti í brjóst um 440 kvenna.



Þessar 550 stækkanir eru fyrir utan brjóstauppbyggingar eftir krabbamein, en samkvæmt nýjustu tölum frá Landlæknisembættinu voru gerðar 126 brjóstnámsaðgerðir árið 2009.



Eins og greint hefur verið frá að undanförnu hefur landlæknir óskað eftir upplýsingum frá tólf lýtalæknum sem reka stofur hér á landi. Frestur til svara rann út fyrir viku, en einungis helmingurinn hefur svarað formlega. Af þessum tólf hefur einn sent inn skriflegar upplýsingar.



Fréttablaðið greindi frá því fyrir ári að engar opinberar tölur væru til hér á landi um fjölda brjóstastækkana eða fegrunaraðgerða almennt.



Þó kveður á um slíkt í lögum frá árinu 2007; það er að Landlæknisembættið eigi að halda utan um upplýsingar er varða allar læknisfræðilegar aðgerðir sem framkvæmdar eru hér á landi. Samkvæmt upplýsingum frá embættinu hefur sú vinna verið í gangi undanfarin misseri að safna þessum upplýsingum, en það hafi gengið hægt. - sv



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×