Innlent

Fréttaskýring: Ekki dæmt um skaðabætur

Hart var deilt á Alþingi í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008. Mögulegt er að EFTA-dómstóllinn komist að þeirri niðurstöðu að Íslendingar hafi mismunað á grundvelli þjóðernis varðandi innstæðutryggingar. Hann dæmir þó ekki um skaðabætur.fréttablaðið/anton
Hart var deilt á Alþingi í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008. Mögulegt er að EFTA-dómstóllinn komist að þeirri niðurstöðu að Íslendingar hafi mismunað á grundvelli þjóðernis varðandi innstæðutryggingar. Hann dæmir þó ekki um skaðabætur.fréttablaðið/anton
Hverjar eru mögulegar niðurstöður EFTA-dómstólsins í máli gegn Íslendingum vegna Icesave?

ESA, eftirlitsstofnun EES, stefndi Íslendingum fyrir dómstól EFTA í desember. Tilefnið var meint brot þeirra á tilskipun um innstæðutryggingar. Dómstólsins er að meta hvort reglur innstæðutryggingakerfis Evrópusambandsins hafi verið brotnar í uppgjöri Icesave-skuldanna.

Samkvæmt tilskipuninni ber innstæðutryggingasjóði hvers lands að tryggja greiðslu lágmarkstryggingar til hvers sparifjáreiganda, að upphæð 20 þúsund evrur.

Við hrun Landsbankans ákváðu íslensk stjórnvöld að ábyrgjast allar innlendar innstæður að fullu. Þetta var gert með neyðarlögunum sem samþykkt voru 6. október 2008, í upphafi bankahrunsins. Geir H. Haarde forsætisráðherra var fyrsti flutningsmaður þeirra. Í ræðu sinni sagði hann lögin nauðsynleg vegna bankakreppunnar.

„Við þessar erfiðu aðstæður hafa stjórnvöld víða um heim neyðst til að grípa til ráðstafana er miða að því að tryggja virkni fjármálakerfisins og efla traust almennings á því,“ sagði Geir í ræðu sinni.

Þetta gilti hins vegar aðeins um innlendar innstæður. Breskir og hollenskir eigendur sparifjár á Icesave-reikningum voru ekki inni í þessu íslenska innstæðukerfi, þó þeir hefðu átt reikninga í íslenskum banka: Landsbankanum.

Bretar og Hollendingar gripu til þess ráðs að tryggja innstæðurnar og fóru fram yfir það sem lágmarkstryggingin sagði til um. Bretar tryggðu 50 þúsund pund og Hollendingar 100 þúsund evrur. Deilur þjóðanna hafa síðan staðið um hvernig Íslendingar ætli sér að standa við lágmarkstrygginguna á erlendum reikningum einnig.

EFTA-dómstóllinn gæti, eins og sagt er frá hér til hliðar, komist að því að ráðstafanir Íslendinga væru brot á banni um mismunun vegna þjóðernis. Sú mismunun ætti þá væntanlega við um allar innstæður líkt og var hér á landi, ekki bara lágmarksinnstæðu. Um töluverðar upphæðir er að ræða þar sem lágmarksinnstæðurnar nema 670 milljörðum íslenskra króna en heildarinnstæður tæpum 1.200 milljörðum.

Eftir stendur að allt útlit er fyrir að eignir þrotabús Landsbankans dugi fyrir forgangskröfum og vel það og þar með lágmarkstryggingunni. Eftir standa þó deilur um vexti. EFTA-dómstóllinn kveður hins vegar aðeins upp úr um hvort brot hafi átt sér stað, ekki hverjar afleiðingar þess eru og hvað þá hvort það hafi skaðabótaskyldu í för með sér. kolbeinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×