Innlent

Enn skerpt á aðgreiningu ritstjórnarefnis og auglýsinga

Skipulagsbreyting hefur verið ákveðin hjá 365 miðlum. Breytingin felur í sér að þeir starfsmenn ritstjórnar Fréttablaðsins sem hafa haft með höndum skrif í kynningarblöð sem fylgt hafa blaðinu færast yfir til sölu- og þjónustusviðs 365 miðla.

Ólafur Þ. Stephensen, ritstjóri Fréttablaðsins, segir að útgáfa kynningar- og auglýsingablaða á vegum 365 miðla hafi farið vaxandi og verið vel tekið. Löng hefð sé fyrir því að kynningarblöð á vegum fyrirtækja, stofnana og félagasamtaka fylgi dagblöðunum. „Sú nýbreytni sem auglýsingadeild 365 hefur bryddað upp á er að gefa út kynningarblöð þar sem kynningum frá smærri fyrirtækjum eða samtökum úr svipuðum bransa er safnað saman," segir Ólafur.

„Starfsfólk ritstjórnar hefur skrifað þessi blöð vegna þess að hér er færnin og reynslan í að skrifa texta. Nú er umfang þessara skrifa hins vegar orðið það mikið að eðlilegast er að starfsmenn sem hafa þau með höndum færist yfir á sölusviðið. Skipulagsbreytingin er gerð til að taka af allan vafa um aðskilnað frétta og ritstjórnarefnis annars vegar og auglýsinga hins vegar," segir hann.

„Þetta tvennt hefur verið rækilega aðgreint í fylgiblöðum Fréttablaðsins en það er rökrétt skref að aðgreina einnig þær deildir í fyrirtækinu sem vinna mismunandi efni."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×