Innlent

Brunnin kanína í Garðabæjarhrauni

Kanínan var ljósbrún að lit og brunnin á annarri hliðinni.
Kanínan var ljósbrún að lit og brunnin á annarri hliðinni. Fréttablaðið/Stefán
„Við sáum bara að það var búið að brenna kanínuna og inni í kassanum var allt brunnið," segir Helga Berglind Tómasdóttir, ellefu ára, sem var úti að ganga ásamt frænku sinni, Söru Hlín Bjarnadóttur, tólf ára, í hrauninu við Garðabæ í gærdag.

Stöllurnar voru að viðra hund Söru þegar þær gengu fram á lítinn kanínukassa sem kveikt hafði verið í. Skammt frá lá kanínan, brunnin á annarri hliðinni og frosin.

„Það var ógeðslegt að sjá þetta. Við urðum smá hræddar," segir Helga. Stúlkurnar fóru rakleiðis heim og létu foreldra Söru vita. Þær hringdu í kjölfarið í Neyðarlínuna, sem gaf þeim samband við lögreglu.

„Löggan vildi ekki gera neitt," segir Helga og tekur Sara undir það. „Það svaraði einhver kona og hún gaf mér samband við lögregluna. Þá svaraði maður og ég sagði honum að við hefðum fundið brunna kanínu," útskýrir Sara, sem sagði lögreglunni hvað gerst hafði, hvað þær frænkur hétu og hvað þær væru gamlar, en fékk dræm viðbrögð.

„Hann sagði bara að þeir gætu ekki farið að leita að þessu núna. Þetta væri úti í hrauni og líklega erfitt að finna," segir Sara. „Við hefðum samt alveg getað sýnt þeim hvar þetta var," segir Helga.

Samkvæmt upplýsingum frá vakthafandi lögreglumanni hjá lögreglunni í Garðabæ í gærkvöld, var málið ekki fært til bókar í gær. Undir eðlilegum kringumstæðum hefðu verið sendir menn á vettvang þegar svona mál koma upp.

Kveikt hafði verið í kanínukofanum og kanínunni, sem lá frosin skammt frá, þegar frænkurnar Söru Hlín Bjarnadóttur og Helgu Berglindi Tómasdóttur bar að.
„Við munum að sjálfsögðu kíkja á þetta," segir lögreglan. „Ég bendi stelpunum á að hafa samband við okkur í dagsbirtu og við munum þá kíkja á þetta."

Að mati lögreglumannsins er afar erfitt að átta sig á því hver gerir svona lagað. Hann ítrekar þó að málið hafi ekki verið fært til bókar í gærdag.

sunna@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×