Innlent

Vill ekki borga dýrt og lélegt malbik

Jón Ólafsson
Jón Ólafsson
Athafnamaðurinn Jón Ólafsson, eigandi vatnsverksmiðjunnar Icelandic Water Holdings í Ölfusi, sér ekki ástæðu fyrir fyrirtækið að taka þátt í malbikunarkostnaði bæjarfélagsins heim að verksmiðjunni. Bæjarstjórnin hyggst óska eftir að fyrirtækið taki þátt í kostnaðinum.

„Af hverju ætti þessi jörð – ein í Ölfusi – að vera höndluð öðruvísi en allar aðrar jarðir þarna, sem fengu heimreiðina malbikaða alveg upp að húsi?“ veltir Jón fyrir sér.

Bæjarstjórnin náði samkomulagi við verktakann KNH ehf., sem lagði malbikið, um 3,5 milljóna greiðslu fyrir verkið. Upphaflega vildi KNH ehf. fá fimm milljónir króna fyrir verkið.

Í fundargerð bæjarstjórnar Ölfuss frá því milli jóla og nýárs er sú upphæð sögð óeðlilega há og vinnubrögð Ólafs Áka Ragnarssonar, fyrrverandi bæjarstjóra, sem tók ákvörðunina um að láta malbika heimreiðina, sögð vera ámælisverð.

„Við fengum einhvern örlítinn spotta, þetta var gert frekar illa – því miður – og ég get ekki séð að það sé eitthvað sem ætti að koma til okkar kasta þegar allir aðrir fengu þetta án greiðslu,“ segir Jón.

„Ef allir aðrir borga hluta af sínu þá er ég til í að borga sömu upphæð, en ég vil ekki að ég sé höndlaður á annan hátt en aðrir sveitungar okkar.“- sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×