Innlent

Friðlýsing Skerjafjarðar er ósamþykkt

kristinn dagur gissurarson
kristinn dagur gissurarson
Skipulagsnefnd Kópavogsbæjar hefur ekki fjallað nægjanlega um friðlýsingu Skerjafjarðar innan sveitarfélagsins, að mati Kristins Dags Gissurarsonar, fulltrúa Framsóknarflokksins í nefndinni. Hann telur formann umhverfis- og samgöngunefndar bæjarins, Margréti Júlíu Rafnsdóttur, hafa fullyrt of mikið um málið, en hún sagði í Fréttablaðinu á mánudag að friðlýsingin gengi í gegn í janúar.

„Það er ekkert búið að kynna þetta í skipulagsnefnd, það er aðeins ein kynning komin. Einhvern tímann um mitt árið í fyrra var tæpt óformlega á friðlýsingarmálum,“ segir Kristinn. Hann telur óvíst að meirihluti sé fyrir málinu í nefndinni, enda séu fulltrúar bæjarstjórnarmeirihlutans þar ekki á eitt sáttir.

„Menn hafa verið sammála um að það lægi ekkert á því að fara í þessa friðlýsingu vegna þess að það er bæjarvernd á svæðinu, sem er ígildi friðlýsingar. Bærinn hefur verið að standa sig mjög vel í verndun svæðisins.“

Kristinn segist sjálfur efast um að friðlýsingu þurfi. Færa þurfi rök fyrir því að bæjarvernd dugi ekki til. Þá þurfi að leggjast yfir málið, hvað sé verið að friðlýsa, hvað það þýði og hvað það kosti.

„Menn mega ekki fara í vinsældapólitík. Friðlýsing er fallegt orð og sumir vilja friðlýsa sem mest,“ segir Kristinn. Hann segir alla vilja passa upp á náttúruna á svæðinu. Annað mál sé hvort úr því þurfi að gera mikið bákn með friðlýsingu.- kóp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×