Innlent

Gunnar Birgisson dæmdur til að greiða sekt

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Gunnar Birgisson og Sigrún Ágústa Bragadóttir voru dæmd til að greiða 150 þúsund krónur í sekt í Héraðsdómi Reykjaness í dag vegna brota tengdum störfum þeirra fyrir Lífeyrissjóð starfsmanna Kópavogs. Þeim var ekki gerð refsing að öðru leyti og aðrir stjórnarmenn í sjóðnum voru sýknaðir af ákæru.

Stjórnarmenn í sjóðnum og Sigrún Ágústa Bragadóttir, sem var framkvæmdastjóri, voru ákærð í tengslum við lán sem Lífeyrissjóður starfsmanna Kópavogs lánaði bæjarsjóði að andvirði mörg hundruð milljóna króna seinnipart árs 2008 og í byrjun árs 2009. Gunnar var stjórnarformaður sjóðsins. Þau Gunnar og Sigrún Ágústa voru fundin sek um að hafa veitt Fjármálaeftirlitinu rangar upplýsingar um lánveitingarnar.

Ómar Stefánsson, bæjarfulltrúi Framsóknarflokks, Flosi Eiríksson, fyrrverandi bæjarfulltrúi Samfylkingar, Jón Júlíusson og Sigrún Guðmundsdóttir voru öll sýknuð í málinu en þau voru stjórnarmenn í sjóðnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×