Innlent

Hefur ítrekað farið fram úr áætlunum

Rekstur Lyfjastofnunar hefur farið fram úr fjárheimildum þrjú af síðustu fjórum árum og segir Ríkisendurskoðun að úrbóta sé þörf.
Rekstur Lyfjastofnunar hefur farið fram úr fjárheimildum þrjú af síðustu fjórum árum og segir Ríkisendurskoðun að úrbóta sé þörf. Fréttablaðið/Valli
Kostnaður við rekstur Lyfjastofnunar hefur verið umfram áætlanir þrjú af síðustu fjórum árum og stefnir allt í að sama muni gilda um yfirstandandi ár. Þetta kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar um rekstur stofnunarinnar.

Í úttektinni segir að áhyggjuefni sé hversu illa hefur gengið að halda rekstrinum innan þess ramma sem stofnuninni sé markaður á fjárlögum hvers árs. Því er þeim tilmælum beint til Lyfjastofnunar og velferðarráðuneytisins að tryggt verði að reksturinn verði í samræmi við fjárheimildir.

„Telji ráðuneytið fjárhagsrammann of þröngan ber því að beita sér fyrir breytingum á honum,“ segir í úttektinni.

Uppsafnaður halli Lyfjastofnunar síðustu ár nemur nú um 216 milljónum króna og mælir Ríkisendurskoðun með því að Lyfjastofnun fái að nýta svokallað bundið eigið fé, sem nemur nú um 313 milljónum króna, til að vinna á hallanum.

Ein ástæða hallans er að stofnunin fær ekki greitt sérstaklega fyrir ýmis lögbundin stjórnsýsluverkefni og leggur Ríkisendurskoðun til að gert verði ráð fyrir slíkum kostnaði framvegis.

Í skýrslunni er þess jafnframt getið að efla þurfi faglega þekkingu og hæfni í eftirlitsstörfum Lyfjastofnunar, en samdráttur í framlögum hafi einna helst bitnað á þessum hluta starfseminnar.- þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×