Enski boltinn

Carroll segist vera hættur að lyfta sér upp

Carroll og Suarez fagna um síðustu helgi.
Carroll og Suarez fagna um síðustu helgi.
Andy Carroll er loksins farinn að endurgreiða Liverpool fyrir þær 35 milljínur punda sem liðið greiddi fyrir hann. Carroll hefur skorað sigurmörk í síðustu leikjum og nú síðast gegn Everton í undanúrslitum bikarsins.

Carroll hefur þrátt fyrir það aðeins skorað 10 mörk í 51 leik fyrir liðið. Þess utan hefur hann aðeins verið í liðinu í 31 leik og hann vill fá fleiri tækifæri í byrjunarliðinu.

"Sjálfstraustið er gott og ég er viss um að ég mun skora meira ef ég fæ fleiri tækifæri í byrjunarliðinu. Það er erfitt að skora á bekknum eða á síðustu tíu mínútum leikja," sagði Carroll.

"Ég vil vera í byrjunarliðinu svo ég geti sýnt hvað í mér býr. Sjálfstraustið hjá mér er ekki gott þegar ég er á bekknum."

Carroll hefur oft verið gagnrýndur fyrir að lifa ljúfa lífinu meira en góðu hófi gegnir sem og að fá sér fulloft í glas. Hann segir að þeir tímar séu að baki.

"Fortíðin er að baki. Ég hef breytt mínum lífsstíl síðan ég kom til Liverpool og orðinn rólegri. Fólk er oft að segja að ég hafi verið fullur í síðustu viku en það eru bara orðrómar. Ég hlæ að þessum sögum. Ef ég á að segja eins og er þá er ég hættur að lyfta mér upp og fer ekki lengur út á lífið. Eina sem ég geri er að hanga heima með kærustunni að horfa á bíómyndir."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×