Innlent

Hundaeigendur í hár saman

Það skal tekið fram að hundarnir á myndinni tengjast fréttinni ekki beint þar sem myndin er úr safni.
Það skal tekið fram að hundarnir á myndinni tengjast fréttinni ekki beint þar sem myndin er úr safni.
Lögreglunni á Suðurnesjum var í gær tilkynnt um tvo hundaeigendur sem ættu í deilum við hesthúsahverfi í umdæminu eftir að hundum þeirra hefði lent saman.

Í tilkynningu frá lögreglu segir að þegar lögreglumenn komu á vettvang var þar fyrir annar hundaeigendanna, sem bar hinum illa söguna. Kvaðst hann hafa verið á gangi með hund sinn þegar annar hundur hefði komið aðvífandi og ráðist á hann. Eigandi árásarhundsins hefði verið í akstri á bifreið sinni og látið sinn hund hlaupa lausan með þegar atvikið átti sér stað. Maðurinn kvaðst hafa átalið þetta athæfi en sá sem bílnum ók svarað illu einu til.

Lögreglan hafði upp á hinum síðarnefnda og gerði honum grein fyrir því að ólíðandi væri að hundur hans gengi laus og réðist á aðra hunda. Hann lofaði bót og betrun, eins og segir í tilkynningu frá lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×