Innlent

Foreldrar Brekkuskóla æfir vegna Snorra í Betel

Snorri er vægast sagt umdeildur í Brekkuskóla.
Snorri er vægast sagt umdeildur í Brekkuskóla.
Foreldrar Brekkuskóla á Akureyri eru æfir vegna bloggfærslu Snorra Óskarssonar, oft kenndur við Betelsöfnuðinn og kennari við skólann, en þar leggst hann harkalega gegn samkynhneigð og sagði slíkar kenndir synd og að laun syndarinnar væri dauði.

Í vikublaðinu Akureyri kemur fram á forsíðu þess að foreldrar nemanda Brekkuskóla séu æfir yfir því sem þau telja fordóma og mannhatur Snorra og segist blaðið ennfremur hafa heimildir fyrir því að foreldrar krefjist þess að honum verði vikið frá störfum.

Þannig á málefni Snorra að hafa verið rætt sérstaklega á fundi skólanefndar Brekkuskóla síðasta mánudag samkvæmt vikublaðinu Akureyri. Málið var merkt sem trúnaðarmál og bar yfirskriftina: Hatursáróður.

Þegar vikublaðið Akureyri ræddi við stjórnarmanninn Loga Má Einarsson, sem einnig á barn í skólanum, og spurði hvort málefni Snorra hefði verið rætt á fundinum, vildi Logi ekki staðfesta það, enda trúnaður sem gildir á slíkum fundum.

Hann svaraði því hinsvegar til að hann hefði séð skrif Snorra og þætti þau sorgleg og grafalvarlegt mál að einstaklingur sem hefur það að atvinnu að uppfræða börn og unglinga - og eigi meðal annars að vinna gegn fordómum - skuli ala á jafnmiklu mannhatri og fordómum og finna má í skrifum hans.

Ekki náðist í skólastjóra Brekkuskóla, Jóhönnu Maríu Agnarsdóttur, né aðstoðarskólastjórann, Bergþóru Þórhallsdóttur, og fengust þau skilaboð að þær yrðu ekki til viðtals í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×