Innlent

Vilja að allir forsvarsmenn lífeyrissjóðanna segi af sér

Stjórn Hagsmunasamtaka Heimilanna hvetur alla stjórnarmenn, forstjóra og framkvæmdastjóra lífeyrissjóða „sem bera ábyrgð á því hvernig fór" að segja af sér eins og fram kemur í ályktun sem stjórn félagsins hefur samþykkt.

Þar segir ennfremur að stjórn HH furði sig á því „hvernig óábyrgar lánveitingar, eins og þær sem tíðkuðust hjá lífeyrissjóðunum í aðdraganda bankahrunsins, geti viðgengist".

Orðrétt segir í ályktun stjórnarinnar:

Ályktun stjórnar Hagsmunasamtaka heimilanna um niðurstöður skýrslu Landssambands Lífeyrissjóða um fjárfestingar sjóðanna í aðdraganda bankahrunsins.

Í ljósi niðurstaðna skýrslu rannsóknarnefndar lífeyrissjóðanna vilja Hagsmunasamtök heimilanna (HH) koma eftirfarandi á framfæri:

Stjórn HH furðar sig á því hvernig óábyrgar lánveitingar, eins og þær sem tíðkuðust hjá lífeyrissjóðunum í aðdraganda bankahrunsins, geti viðgengist. Samtökin skora á Alþingi að láta gera ítarlega og óháða úttekt á lífeyrissjóðum, þar sem meðal annars verði rannsakað hvort stjórnir sjóðanna hafi með fjárfestingastefnu eða ákvörðunum sínum brotið gegn sjóðsfélögum og almenningi. Einnig að ráðist verði í heildarendurskoðun á íslenska lífeyrissjóðakerfinu en sterk rök og vísbendingar liggja að því að það sé ósjálfbært.

Stjórn HH telur lýðræðisvæðingu lífeyrissjóðanna vera eina af þeim grundvallarforsendum sem byggja verður á þegar rætt er um endurskoðun á kerfinu. Það eru sjálfsögð lýðréttindi að sjóðsfélagar kjósi stjórnir síns sjóðs með beinni kosningu. Hægt er að ganga strax í það mál á meðan rannsókn á lífeyrissjóðunum stendur yfir.

Stjórn HH hafnar þeim 170 milljarða króna reikningi sem lántakendum verðtryggðra lána hefur verið sendur af lífeyrissjóðunum í formi verðbóta frá ársbyrjun 2008 til að borga upp í tæplega 500 milljarða tap sjóðanna. Ekki er forsvaranlegt að velta þessum kostnaði yfir á lántakendur.

Stjórn HH skorar á alla stjórnarmenn, forstjóra og framkvæmdastjóra lífeyrissjóða sem bera ábyrgð á því hvernig fór að segja af sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×