„Þetta hefur verið mjög áberandi núna í haust og eftir áramót," segir jafnréttisstýra Jafnréttisstofu, Kristín Ástgeirsdóttir, en kvörtunum vegna klámfenginna auglýsinga hefur rignt yfir jafnréttisstofu að undanförnu.
Hún segir í samtali við fréttastofu að kvartanir vegna slíkra auglýsinga hafi stóraukist síðasta haust. Þannig hafi verið kvartað undan Keilusalnum á Akureyri og auglýsinga vegna Dirty Nights sem halda átti einnig á Akureyri. Þá hefur verið kvartað undan gosdrykkjarauglýsingu.
Úrræði Jafnréttistofu eru takmörkuð þegar kemur að kvörtunum vegna auglýsinga. Þannig segir Kristín að Jafnréttisstofa kvarti árlega undan auglýsingu veiðibúðar. Í auglýsingunni stendur fáklædd kona út í miðri á að veiða. Auglýsandinn hefur hinsvegar hunsað ábendingar Jafnréttisstofu í hvert skiptið.
„Það er eins og fólk sé meira vakandi yfir þessu," segir Kristín en í auglýsingunni sem snertir keilusalinn á Akureyri, og vikublaðið Akureyri greindi frá í dag, var auglýst að keilukúla væri „líka með þrjú göt".
„Auglýsendur eru farnir að ganga lengra," segir Kristín. „Ég túlka þetta sem afleiðingar klámkynslóðarinnar," bætir Kristín við að lokum.
