Innlent

Sendu eldri borgurum smáaura og fóru svo að "gambla" með peninga

Höskuldur Kári Schram skrifar
Helgi Vilhjálmsson í Góu segir að stjórnendur lífeyrissjóðanna hafi misnotað vald sitt á árunum fyrir hrun og því eigi þeir að víkja. Hann íhugar að leggja lífeyrisgreiðslur beint inn á bankabók starfsmanna í stað þess að láta lífeyrissjóðina fá peningana.

Helgi hefur gagnrýnt lífeyrissjóðina um árabil og segir að skýrslan um starfsemi þeirra sýni að stjórnendur þeirra hafi ekki valdið hlutverki sínu.

„Við eigum þessa peninga og þeir sem eru í lífeyrissjóðum, þeir eiga peningana ekki. Þeir hafa ekki verið úti á ballarhafi að vinna fyrir þessum peningum. Nú er búið að koma í ljós, ég veit ekki hvað ég á að segja, hverslags rugl hefur verið í gangi þarna," segir Helgi.

Hann segir nauðsynlegt að stokka upp kerfið

„Ég held að þeir hafi gleymt hlutverki sínu. Þeir voru að vinna fyrir eldri borgara og voru að senda þeim smáaura í umslagi á meðan þeir voru að „gambla" með peningana í spilakössum. Verkin tala."

Ættu þessir menn að víkja að þínu mati? „Það er engin spurning, það þarf að stokka þetta allt upp."

Hann segir að stjórnendur lífeyrissjóðanna hafi misnotað vald sitt.

„Ég byrjaði sjálfur að borga í lífeyrissjóð fyrir næstum því 40 árum og fannst þetta mjög sniðugt kerfi. En menn sem hafa stjórnað því, þeir hafa misnotað vald sitt."

Helgi íhugar að leggja framvegis lífeyrisgreiðslur beint inn á bankabók starfsmanna í stað þess að láta lífeyrissjóðina fá peningana.

Hefurður talað við starfsfólk þitt um þetta? „Sumir eru alveg tilbúnir í þetta. Spurning hvort ég geri bara ekki eitthvað, bara borgi fólki þessa peninga af því einu sinni nefndi ég í viðtali að lífeyrissjóðirnir mættu sleppa einu ári til þess að hjálpa heimilunum á meðan við erum að hugsa. Nei, þeir gerðu allt annað," segir Helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×