Innlent

Mikið um hálkuslys

Asahláka hélt áfram að hrella borgarbúa í nótt og í dag. Fullt var út úr dyrum á bráðamóttöku landspítalans í nótt vegna hálkuslysa og mannbroddar ruku út eins og heitar lummur.

Asahláka hefur valdið miklum usla á höfuðborgarsvæðinu undanfarna sólarhringa eftir að snjórinn fór að bráðna í burtu og skildi eftir flughált íslag sem margir eiga erfitt með að fóta sig í. Þannig þurftu fjölmargir að leita á slysadeild landspítalans en læknir þar segir marga verða óstöðugri þegar þeir eru að skemmta sér í miðbænum.

„Það var sérstaklega í nótt, margir brotnir sem þurftu í aðgerð og má segja að bæklunardeildin hafi fyllst," sagði Einar Hjaltason, sérfræðingur á slysadeild.



Hann segir þetta aðallega vera fólk sem rennur til í hálkunni og dettur og brýnir fyrir fólki að vera vel skóað.

Margir huguðu einmitt að skófatnaði sínum í dag og fjárfestu í mannbroddum sem fengust í úrvali hjá skósmiðnum í Austurveri enda ófært fyrir gangandi vegfarendum á mörgum stöðum í borginni.

„Það er búið að vera ansi mikið að gera enda færið alveg hræðilegt úti, varla maður hætti sér út fyrir hússins dyr nema að vera í einhverjum göddum," segir Jónína Sigurbjörnsdóttir, skósmiður og segir gadda mjög vinsæla um þessar mundir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×