Innlent

Segja kvótafrumvarpið mjög íþyngjandi fyrir sjávarútveginn

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Kvótafrumvarpið sem Steingrímur J. Sigfússon, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, kynnti í gær er mjög íþyngjandi fyrir rekstur sjávarútvegsfyrirtækja. Þetta kemur fram í greinargerð sem unnin var fyrir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið. Það voru þeir Daði Már Kristófersson, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands, og Þóroddur Bjarnason, prófessor í félagsfræði við Háskólann á Akureyri, sem unnu greinargerðina.

Í greinargerðinni kemur fram að hækkun veiðigjalds muni án efa kippa stoðum undan skuldsettari útgerðarfyrirtækjum. Þá muni álögur sem leggjast munu á viðskipti með aflahlutdeild og framlag allra útgerða í pottana verða íþyngjandi. Mikilvægt sé að kanna umfang þessara afleiðinga svo vega megi saman kostnað og væntan ábata aðgerðanna.

Þá segir að byggðaaðgerðir frumvarpsins séu ólíklegar til að ná þeim markmiðum se stefnt sé að. Fyrst og fremst skorti enn þann langtímastöðugelika em geti skapað grundvöll fyrir uppbyggingu atvinnulífs í sjávarbyggðum og útfærsla á ráðstöfun aflamarks í flokki tvö á kvótaþingi sé óljós.

Þá segir að sjávarbyggðir á Íslandi séu of margar og smáar til að umfangsmikil útgerð verði rekin í þeim öllum og því þurfi að skilgreina með skýrum hætti stærri atvinnusvæði þar sem sjávarútvegur sé mikilvægur burðarás atvinnulífsins og leita leiða til að gera útgerð á þeim svæðum hagvkæmari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×