Innlent

Vilja breyta lögum um kynferðisbrot

Fagráðið vill láta refsiréttarnefnd kanna hvort grundvöllur sé fyrir því að afnema fyrningarfrest í öllum alvarlegum kynferðisbrotamálum. fréttablaðið/Hari
Fagráðið vill láta refsiréttarnefnd kanna hvort grundvöllur sé fyrir því að afnema fyrningarfrest í öllum alvarlegum kynferðisbrotamálum. fréttablaðið/Hari
Fela á refsiréttarnefnd að kanna hvort grundvöllur sé fyrir því að fyrningarfrestur í alvarlegum kynferðisbrotum verði afnuminn með öllu, samkvæmt tillögum í minnisblaði fagráðs innanríkisráðuneytisins um kynferðisbrot til Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra 16. janúar síðastliðinn. Fyrningarfrestur vegna alvarlegustu kynferðisbrotanna gegn börnum hefur nú þegar verið afnuminn.

Róbert R. Spanó, formaður nefndarinnar, segir að hvort grundvöllur sé til að afnema fyrningarfrest í öðrum tilvikum alvarlegra kynferðisbrota verði metið af hálfu refsiréttarnefndar, ef og þegar slíkt erindi væri lagt fyrir hana.

Refsiréttarnefnd er skipuð af innanríkisráðherra og semur hún meðal annars lagafrumvörp á sviði refsiréttar og gætir að því að samræmis sé gætt í setningu laga og reglna.

Í minnisblaði fagráðsins til ráðherra segir einnig að nauðsynlegt sé að huga að því að einstaklingar með erfiða reynslu að baki í kynferðisbrotamálum fái aðstoð til að vinna úr áföllum sínum.

„Í þessu samhengi þurfi sérstaklega að huga að stöðu einstaklinga sem hafa leitað til réttarkerfisins vegna kynferðisbrota en málin ekki fengið framgang vegna fyrningarfresta,“ segir í blaðinu. „Fagráð telur að vænlegt gæti verið að huga að ákvæðum laga um greiðslu bóta vegna ofbeldisbrota í þessu samhengi og þá sérstaklega hvort að unnt væri að kveða á um aðstoð í formi greiðslu sálfræðikostnaðar.“

Einnig er kveðið á um að þrátt fyrir ákvæði hegningar- og barnaverndarlaga virðist vera þörf á að styrkja lagalega umgjörð varðandi kynferðisbrot sem eiga sér stað innan skipulagðra samtaka á borð við trúfélög og æskulýðs- og íþróttafélaga.

Fagráð innanríkisráðuneytisins var skipað í byrjun maí á síðasta ári með þeim tilgangi að vera innanríkisráðherra til ráðgjafar í málum er varða kynferðisbrot innan trúfélaga og félagasamtaka og leiðbeina honum um leiðir til úrbóta.

sunna@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×