Innlent

Segir vel tekið á eineltismálum í skólanum

Selfoss.
Selfoss.
„Þegar einelti kemur upp, eða ávæningur af slíku berst til okkar, fer af stað ákveðið ferli, þar sem meðal annars eru strax tekin viðtöl við þá sem eiga hlut að máli," útskýrir Birgir Edwald, skólastjóri Sunnulækjarskóla, en móðir nemanda skólans ræddi við sunnlenska fréttavefinn DFS í gær, þar sem hún lýsti því hvernig tíu ára sonur sinn þyrfti að þola rætið einelti í skólanum.

Þá sagði hún frá því þegar hún sótti son sinn í skólann í hádeginu í gær, en þá var búið að troða hundaskít í vasann hans. Nemandinn hefur átt erfitt í skólanum og orðið áður fyrir einelti að sögn móður hans.

Birgir segir eineltismál ávallt ofarlega á baugi skólans og það séu skýrir verkferlar sem taki við komi slík tilvik upp. Hann segir að eineltismál séu að auki mæld í svokölluðum skólapúls, en þá er gerð könnun í nemendahópum skólans.

„Og síðustu tvo mánuði hefur frekar dregið úr einelti samkvæmt þeim niðurstöðum. Sveiflurnar eru samt svo litlar," segir Birgir. Einnig eru viðhorf foreldra könnuð. Niðurstaðan þar er keimlík þeirri sem fékkst í svipaðri könnun hjá Reykjavíkurborg. Þar töldu 70% foreldra skólann hafa unnið vel með eineltismál í skólunum.

Hann segist ekki geta tjáð sig um einstök mál þegar hann er spurður út í málefni nemandans.

Birgir fagnar hinsvegar umræðunni um einelti, „sú umræða skilar sér og hjálpar mikið þeim sem vinna í svona málum. Núna er til að mynda auðveldara að leita til foreldra vegna eineltismála," segir hann.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×