Innlent

Helmingurinn vildi sjá þyngri refsingar

Helgi Gunnlaugsson, prófessor við Háskóla Íslands, kynnti niðurstöður nýrrar rannsóknar á viðhorfum Íslendinga til refsinga, á ráðstefnu Norræna sakfræðiráðsins í vikunni. Fréttablaðið/ÓKÁ
Helgi Gunnlaugsson, prófessor við Háskóla Íslands, kynnti niðurstöður nýrrar rannsóknar á viðhorfum Íslendinga til refsinga, á ráðstefnu Norræna sakfræðiráðsins í vikunni. Fréttablaðið/ÓKÁ
Ný rannsókn leiðir í ljós afar ólík viðhorf fólks til refsinga við afbrotum, sér í lagi þegar kemur að kynferðisbrotum. Helgi Gunnlaugsson, prófessor við Félags- og mannvísindadeild Háskóla Íslands, kynnti niðurstöður rannsóknar sinnar á 50 ára afmælisráðstefnu Norræna sakfræðiráðsins sem fram fór á Hótel Selfossi í byrjun vikunnar.

„Í ljós kemur djúp gjá í afstöðu fólks til kynferðisbrota gegn börnum,“ segir Helgi um niðurstöðurnar. „Mjög stór hópur er miklu harðari en dómararnir.“ Í rannsókninni var fólk í rýnihópum beðið að lýsa afstöðu sinni til tveggja raunverulegra afbrotamála. Annars vegar er um að ræða konu sem starfaði í banka og notaði aðstöðu sína til að draga sér fé, bæði með því að stofna gervireikninga og til að stela peningum af reikningum fólks. Afraksturinn af gervireikningunum notaði hún til hlutabréfakaupa og nam endanlegt tap bankans 60 milljónum króna. Hitt voru smærri upphæðir. Fyrir dómi fékk hún þriggja ára óskilorðsbundið fangelsi. Í rýnihópunum vildi um fjórðungur sjá þyngri refsingu.

Helmingur aðspurðra vildi hins vegar sjá fimm ára óskilorðsbundið fangelsi, eða jafnvel mun þyngri refsingu, í máli fertugs manns sem misnotað hafði stjúpdóttur sína. Misnotkunin hófst þegar stúlkan var tíu ára og lauk þegar hún var 15 ára. Maðurinn hafði við stúlkuna samfarir frá því hún var 14 ára. Málið komst upp þegar stúlkan greindi vinkonu sinni frá. Maðurinn brotnaði saman þegar málið komst upp og viðurkenndi allt og var fullur iðrunar. Hann var í góðu starfi og kominn í nýtt hamingjuríkt samband þegar að dómi kom. Hann var þá dæmdur í 18 mánaða óskilorðsbundið fangelsi.

„En síðan var þarna í rýnihópunum þriðjungur sem bara vildi ekki fangelsisrefsingar og kaus fremur aðrar leiðir,“ segir Helgi og kveður það fólk fremur hafa horft til betrunarúrræða og mýkri leiða. „En afstaðan sem í ljós kom í báðum hópum er mjög afgerandi, annars vegar er það rosaleg harka og svo hinir sem telja að nálgast þurfi hlutina á annan hátt.“

Rannsókn Helga er hluti af stærri norrænni rannsókn, en niðurstöður hennar leiða í ljós heldur meiri refsigleði en í þeirri norrænu. Í hvoru máli fyrir sig voru þrír rýnihópar, á aldrinum 18 til 29 ára, 30 til 49 ára og 50 til 74 ára, alls um 30 manns í hvoru máli.

olikr@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×