Innlent

Fimm milljónir í umhverfisstyrki

Landsbankinn veitti 17 umhverfisstyrki að þessu sinni
Landsbankinn veitti 17 umhverfisstyrki að þessu sinni mynd/LÍ
Landsbankinn veitti í dag 5 milljónir króna í umhverfisstyrki úr Samfélagssjóði bankans en að þessu sinni voru veittir 17 styrkir. Ríflega 130 umsóknir bárust.

Í tilkynningu segir að styrkjunum er ætlað að styðja við verkefni á sviði umhverfismála og náttúruverndar. Styrkirnir byggja á stefnu bankans um samfélagslega ábyrgð hans og skyldur.

„Dómnefnd um úthlutun umhverfisstyrkja að þessu sinni var skipuð þeim Dr. Brynhildi Davíðsdóttur, dósent í Umhverfis- og auðlindafræðum við HÍ, Dr. Þorvarði Árnasyni, umhverfis- og náttúrufræðingi og forstöðumanni Rannsóknarseturs HÍ á Hornafirði, Finni Sveinssyni sérfræðingi í samfélagslegri ábyrgð hjá Landsbankanum og Dr. Guðrúnu Pétursdóttur, forstöðumanni stofnunar Sæmundar Fróða um sjálfbæra þróun við HÍ, en hún var jafnframt formaður dómnefndar."

Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans segir í tilkynningu að það sé stefna bankans að vinna í sátt við umhverfið. „... og umhverfisstyrkirnir eru leið bankans til að verðlauna góðar hugmyndir og leggja þeim lið sem vilja gera vel í umhverfismálum og náttúruvernd. Innan bankans höfum við hrint úr vör verkefnum í þessa veru, m.a. höfum við hvatt starfsmenn að skrifa undir samgöngusamning og ferðast á vistvænan máta til og frá vinnu. Það hefur þegar skilað góðum árangri. Við höfum sömuleiðis markvisst dregið úr pappírsnotkun og frá árinu 2010 höfum við kolefnisjafnað útblástur af ferðum starfsmanna á bílum í eigu bankans. Fleiri verkefni af svipuðum toga eru í undirbúningi."

Samfélagssjóður Landsbankans veitir ferns konar styrkir á hverju ári: námsstyrki, samfélagsstyrki, nýsköpunarstyrki og umhverfisstyrki.

Eftirtaldir hlutu umhverfisstyrki úr Samfélagssjóði bankans að þessu sinni:

500 þúsund króna styrkir:

Landvernd - Umhverfis- og landgræðslusamtök Íslands

Til að gera fræðsluefni um jarðhitasvæði á Íslandi, með það að markmiði að efla þekkingu, bæta umgengni og stuðla að sjálfbærri ferðamennsku á jarðhitasvæðum.

Sigrún Ólafsdóttir, Jón Gunnar Bernburg og Sara Sigurbjörns-Öldudóttir

Til að gera alþjóðlega rannsókn á viðhorfi til umhverfismála og sjálfbærni, sem styrkt getur forsendur fræðslu og menntunar til sjálfbærrar þróunar á Íslandi.

Sólheimar - Sesseljuhús Umhverfissetur

Til að efla fræðslustarf Orkugarðs á Sólheimum og standa að uppbyggingu Orkugarðs utandyra. Orkugarður er fræðslu og skemmtigarður um endurnýjanlega orkugjafa á Sólheimum

250 þúsund króna styrkir:

Arkitektafélag Íslands

Til að gefa út fræðslurit Arkitektafélags Íslands um vistvæn málefni. Greint verður frá vistvænum sjónarmiðum í byggingarlist og skipulagi með það að markmiði að efla vitund um umhverfisáhrif bygginga.

Arnfirðingafélagið í Reykjavík

Til að standa að skógrækt og umhverfisátaki í Bíldudal sem unnið er af heimamönnum í sjálfboðastarfi.

Ferðamálafélagið Súlan

Til að merkja gönguleiðir á Langanesi en svæðið er á náttúruminjaskrá.

Fuglavernd

Til að ljúka gerð fræðsluefnis fyrir leikskólabörn um náttúruvernd þar sem fuglar Íslands eru í forgrunni.

Gróður fyrir fólk í Landnámi Ingólfs

Til að starfrækja samstarfsverkefni á grunn- og framhaldsskólastigi um útiskóla við trjárækt og uppgræðslu árið 2012.

Hjólafærni á Íslandi

Til að standa fyrir hjóladögum í tíu skólum með það að markmiði að efla þekkingu barna á þýðingu hjólreiða fyrir samfélagið og hvetja til aukinna hjólreiða.

Hrafnkell Karlsson

Til að endurgera þjóðleið fyrir almenning frá Hrauni til Þorlákshafnar með endurhleðslu gamalla grjótvarða.

Jóhannes Sturlaugsson

Til að útbúa fræðslu- og kynningarefni um lífshlaup sjóbirtings (einkennisfisks straumvatna). Fræðsluefnið er einkum ætlað ferðamönnum sem heimsækja Kirkjubæjarklaustur.

Landgræðslufélag Héraðsbúa

Til að standa að landgræðsluverkefni þar sem ónýttar heyrúllur eru nýttar til uppgræðslu. Um er að ræða sjálfbært verkefni, því heyrúllur verða jafnan að úrgangi.

Náttúran.is

Til að þróa snjallsímaforrit með endurvinnslukorti fyrir Ísland sem ætlað er auðvelda aðgengi að endurvinnslustöðvum og fræða almenning um umhverfisvernd og sjálfbærni.

Oddur Vilhelmsson

Til að fjármagna rannsókn á örverum í jarðvegi en þær eru afgerandi fyrir árangur í landgræðslu.

Sigurður Eyberg

Til að fjármagna gerð heimildamyndar um „Vistspor Íslands." Myndin fjallar um þau áhrif sem lífsstíll Íslendinga hefur á umhverfið og tilraun höfundar að lifa sjálfbæru lífi.

Sjálfboðaliðasamtök um náttúruvernd

Til að standa straum af efniskostnaði við gróðursetningu og fræsáningu í Hekluskógaverkefninu sem hefur verið starfrækt í 25 ár.

Ungmennafélagið Einingin

Til að bæta aðgengi og stuðla að umhverfisvernd við náttúruperlurnar, Aldey og Aldeyjarfoss sem laða stöðugt að fleiri ferðamenn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×