Innlent

Vilja fá leigubílaskýli í Lækjargötuna aftur

Leigubílstjórar segja það bæði tímafrekara og hættumeira að koma næturgestum miðborgarinnar til síns heima eftir að þetta skýli var flutt úr Lækjargötu í Hafnarstræti.Fréttablaðið/Hari
Leigubílstjórar segja það bæði tímafrekara og hættumeira að koma næturgestum miðborgarinnar til síns heima eftir að þetta skýli var flutt úr Lækjargötu í Hafnarstræti.Fréttablaðið/Hari
„Fólk getur beðið í þessu skýli í marga sólarhringa án þess að fá leigubíl,“ segir Jóhann Sigfússon, formaður Bifreiðastjórafélagsins Átaks, um safnskýli fyrir leigubílafarþega í Hafnarstræti.

Haustið 2009 var safnskýlið, sem þá hafði um langt árabil staðið í Lækjargötu, flutt á núverandi stað. Þar á fólk að safnast í röð til að fá leigubíl á nóttunni um helgar. Á árinu 2010 gekk Jóhann ásamt leigubílstjóranum Árna Arnari Óskarssyni á fund fulltrúa borgarinnar til að ræða þessa breytingu sem þeir töldu afar misráðna.

„Þeir sögðust vera búnir að átta sig á að þetta væru mistök en báru við peningaskorti þegar við báðum um að skýlið yrði flutt aftur í Lækjargötu. Borgin virðist enn ekki telja sig hafa efni á að færa skýlið en hefur á sama tíma peninga til að hefja strætisvagnaferðir til Akureyrar,“ segir Jóhann.

Núverandi staðsetningu skýlisins segja þeir Jóhann og Árni, sem báðir aka hjá BSR, óhentuga vegna aðkomunnar að því. „Við náum aldrei að keyra alla leið um miðbæinn að þessu skýli án þess að taka upp farþega,“ segir Jóhann og útskýrir þannig hvers vegna fólk geti beðið von úr viti við skýlið í Hafnarstræti án þess að fá leigubíl.

Árni segir „furðulegar“ útskýringar og skilningsleysi hafa mætt þeim hjá borginni. „Þeir ætluðust til að við leigubílstjórarnir keyrðum Snorrabrautina, Hverfisgötuna, Lækjargötuna, Geirsgötuna og síðan Tryggvagötuna til að nálgast okkar kúnna í skýlinu í Hafnarstræti. Það er bara aldeilis ekki þannig: Við förum skjótustu og auðveldustu leiðina til að nálgast okkar kúnna; það er að segja Miklubraut, Hringbraut, Sóleyjargötu, Fríkirkjuveg. Þeir sem losna norðan við koma Sæbrautina,“ segir Árni og kveður hlægilegt að „einhverjir skrifpinnar“ sem þekki ekki málavexti haldi sig geta leyst málin.

„Þegar skýlið var við Lækjargötu höfðum við þá reglu að aka ekki um Sóleyjargötu og Fríkirkjuveg með laus-skiltið uppi á nóttunni til þess að fólk væri ekki að reyna að ná bílum þar. Við vorum búnir að ala næstum alla Reykvíkinga upp í því bíða þolinmóðir í skýlinu eftir leigubíl. Þar var skipulag sem virkaði með vörðum sem gættu þess að allt færi fram eins og til var ætlast. Núna er meiri hætta á að fólk rangli beint fyrir bílana hjá okkur til að reyna að stoppa þá,“ segir Jóhann Sigfússon.

Ekki náðist tal af verkfræðingi hjá umhverfis- og samgöngusviði sem vísað var á vegna málsins hjá borginni í gær.gar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×