Innlent

Sótti óvart um geitahald í Hafnarfirði

Geitur eru kýr hinna fátæku og mjög skemmtilegar í samskiptum við menn, segir Jóhann Davíð Barðason í bréfi til bæjarstjórans í Hafnarfirði.Fréttablaðið/SBS
Geitur eru kýr hinna fátæku og mjög skemmtilegar í samskiptum við menn, segir Jóhann Davíð Barðason í bréfi til bæjarstjórans í Hafnarfirði.Fréttablaðið/SBS
„Ég verð að leiðrétta þetta við bæinn,“ segir Jóhann Davíð Barðason sem sótti óvart um leyfi til að halda tvær geitur við hús í útjaðri Hafnarfjarðar.

„Þar sem nú hefur harðnað í ári hjá mörgum eftir efnahagshrunið þá hafa undirritaður og fjölskylda hans ákveðið að snúa sér meira að heimaræktun, bæði til að halda aftur af fjárútlátum og til að stuðla að bættri heilsu, við erum nú komin með fjölbreyttan matjurtagarð og lítið gróðurhús þar sem við ræktum flest það sem við borðum,“ segir Jóhann í bréfi sem hann skrifaði Guðmundi Rúnari Árnasyni bæjarstjóra.

Bréf Jóhanns var tekið fyrir á síðasta fundi bæjarráðs sem fól Guðmundi Rúnari bæjarstjóra að afla nánari upplýsinga um geitamálið. Jóhann segist hins vegar aldrei hafa ætlað að senda bréfið. Hann hafi fengið það verkefni í íslensku í Háskólanum í Reykjavík að skrifa formlegt bréf og óska eftir leyfi bæjaryfirvalda til að halda geiturnar tvær.

„Ég prentaði bréfið út í vinnunni og skildi eftir á borðinu. Vinnufélagi minn sem var að fara á bæjarskrifstofurnar sá þarna bréf til bæjarstjórans og kippti því bara með og skilaði inn fyrir mig,“ segir Jóhann og hlær.

Bæjaryfirvöld tóku sem sagt ekki fyrir að heimila geitahaldið heldur fólu æðsta embættismanni sínum að grennslast fyrir um áætlanir Jóhanns. „Ég er ánægður með hvað þetta er komið langt.“- gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×