Innlent

Ámælisvert hjá stjórnmálaflokkum á þingi að skila upplýsingum of seint

Sveinn Arason ríkisendurskoðandi telur það ámælisvert að stjórnmálahreyfingar skili ekki upplýsingum um fjármál innan settra tímafresta. Þannig skiluðu þrír stjórnmálaflokkar á Alþingi upplýsingum um fjármál flokkanna of seint, eða eftir 1. október 2011.

Það voru Samfylkingin, Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkur. Aðrir flokkar og stjórnmálaöfl sem skiluðu upplýsingum of seint voru Besti flokkurinn, Samtök fullveldissinna og Íslandshreyfingin.

Í inngangi sem Sveinn skrifar í ársskýrslu Ríkisendurskoðunar, segir hann að það komi ítrekað fyrir að flokkar skili upplýsingum of seint.

„Ég tel ámælisvert að flokkar sem eiga fulltrúa á Alþingi skuli ekki virða þau tímamörk sem þingið hefur sjálft sett þeim með lögum," segir Sveinn í ávarpi sínu.

Meðal lögbundinna verkefna Ríkisendurskoðunar er eftirlit með fjármálum stjórnmálasamtaka og frambjóðenda. Þessum aðilum ber samkvæmt lögum skylda til að skila fjárhagsupplýsingum til stofnunarinnar innan settra tímafresta.

Frestur stjórnmálasamtaka til að skila ársreikningum sínum er lögbundinn og miðast við 1. október ár hvert en Ríkisendurskoðun setur tímafresti þegar um er að ræða upplýsingar um kostnað frambjóðenda af kosningabaráttu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×