Innlent

Hægfara þing haldi áfram fram á sumar

Steingrímur J. Sigfússon stjórnmál efnahagsmál gengisdómur þingmenn Bjarni Benediktsson
Steingrímur J. Sigfússon stjórnmál efnahagsmál gengisdómur þingmenn Bjarni Benediktsson
Alþingi mun starfa fram í júní eða júlí gerist þess þörf. Þetta sagði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra í þinginu í gær. Hún sagði þó að vel ætti að vera hægt að ljúka þingstörfum fyrir 31. maí eins og starfsáætlun gerir ráð fyrir, ef vilji væri fyrir hendi.

Stjórnarliðar og stjórnarandstöðuþingmenn tókust á í umræðum um störf þingsins og lengd þess í gær. Fjöldi mála bíður afgreiðslu þingsins og var samþykkt í gær að funda fram á kvöld.

„Það er öllum ljóst að þetta þing er í miklum hægagangi og hér er mikið málþóf í gangi,“ sagði Jóhanna.

Forsætisráðherra sagði Framsóknarflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn aðeins hafa það markmið að koma í veg fyrir að mál, sem þjóðin hefði beðið eftir lengi, næðu fram að ganga.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði stjórnarþingmenn eiga að líta sér nær, það væri á ábyrgð ríkisstjórnarinnar en ekki stjórnarandstöðunnar að þingið stæði í þessum vanda. Hann sagði umræðuna jafnframt hlægilega.

„Við erum tilbúin til að vera hér alveg sleitulaust fram að næstu kosningum,“ sagði Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, um þingflokk sinn. Hún sagði forsætisráðherra vera með hótanir og sagði núverandi stöðu þingsins tilkomna vegna þrjósku hans.

„Það er alveg ljóst hvað er hér í gangi. Það standa hörð átök um völdin á Íslandi og Sjálfstæðisflokkurinn er brjálaður yfir því að vera ekki við völd,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna við Fréttablaðið í gær.

Steingrímur segir Sjálfstæðisflokkinn vilja gera ríkisstjórninni allt til bölvunar og skeyti ekkert um þjóðarhag í þeim efnum. - þeb, kóp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×