Innlent

Erfitt að halda athöfn með presti

Theodór Kr. Þórðarson Yfirlögregluþjónn segir vandræði skapast ef geyma þarf fleiri en eitt lík í einu Borgarbyggð.
Theodór Kr. Þórðarson Yfirlögregluþjónn segir vandræði skapast ef geyma þarf fleiri en eitt lík í einu Borgarbyggð.
Theodór Kr. Þórðarson, yfirlögregluþjónn í Borgarfirði og Dölum, segir líkgeymslumál í Borgarfirði í ólestri. Vandamálið sé í senn viðkvæmt og aðsteðjandi og nauðsynlegt að bregðast við því hið fyrsta.

Í bréfi Theodórs til byggðaráðs Borgarfjarðar segir hann vandann að hluta til felast í því hversu „líkhúsið“ í heilsugæslustöðinni í Borgarnesi sé lítið. „Séu þar fyrir eitt eða tvö lík þegar skyndilegt dauðsfall verður, til dæmis vegna umferðarslyss, er orðið mjög erfitt að athafna sig fyrir lögreglumenn, starfsfólk útfararstofnana og aðra sem að þessum málum koma. Að ekki sé minnst á þegar taka þarf á móti ættingjum í þessu herbergi að halda þar athöfn með presti og tilheyrandi,“ skrifar Theodór og þá er allur vandinn ekki upptalinn.

„Fyrir utan nefnd þrengsli er í öðru lagi þarna aðeins lágmarks kælibúnaður sem hefur þar fyrir utan verið nokkuð bilunargjarn,“ lýsir yfirlögregluþjónninn sem segist vonast til að líkgeymslan verði stækkuð sem fyrst svo hún rúmi fjögur til sex lík í einu og að þar verði komið fyrir „viðeigandi og virkum kælibúnaði“.

Byggðaráðið fól sveitarstjóranum að ræða við Heilbrigðisstofnun Vesturlands um úrbætur.- gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×