Innlent

Skógarkerfill sækir í sig veðrið

Hvítar breiður Hér sést hvernig skógarkerfill hefur dreift sér á Mógilsá. Fréttablaðið/Pjetur
Hvítar breiður Hér sést hvernig skógarkerfill hefur dreift sér á Mógilsá. Fréttablaðið/Pjetur
Skógarkerfill hefur lagt undir sig lúpínubreiður í Hrísey á undanörnum árum. Gróska kerfilsbreiða hefur nú verið rannsökuð í fyrsta sinn og því er hægt að fá vísbendingar um hvers er að vænta í landi sem skógarkerfill leggur undir sig. Að sögn Borgþórs Magnússonar, plöntuvistfræðings hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, sækir kerfillinn helst í frjósamt land og gömul tún sem hætt er að rækta.

„Skógarkerfillinn er nýr leikmaður í spilinu,“ segir Borgþór. „Það er líklegt að hann eigi eftir að láta að sér kveða víða.“ Skógarkerfillinn fylgir kjörlendi lúpínunnar og segir Borgþór að nánast ekkert þrífist undir honum.

Plöntunnar hefur nú orðið vart við Húsavík og Reykjavík. „Ef menn eru ekki á varðbergi er alveg hægt að eiga von á því að hann leggist yfir lyngmóa, sem er ekki ákjósanlegt að margra dómi.“

Borgþór segir niðurstöður rannsókna á lúpínu í fyrrasumar sýna að vöxtur og útbreiðsla hennar sé mjög misjafn eftir landshlutum og aðstæðum. Hann kynnir niðurstöðurnar í erindi hjá Náttúrufræðistofnun í dag.- sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×